Vinur sprengjumannsins úr Boston-maraþoninu í fyrra, Dzhokhars Tsarnaev, játaði í dag að hafa fjarlægt sönnunargögn í málinu. Dias Kadyrbayev og Azamat Tazhayakov, báðir vinir Tsarnaevs, fengu frá honum smáskilaboð þegar hann var á flótta eftir tilræðin þar sem hann bað þá að fela muni úr herbergi sínu. Tazhayakov svaraði skilaboðunum með „Ha Ha :)“ og henti síðan bakpoka með flugeldum, vaselíni og tölvudrifi sem komið hafði við sögu við sprengjugerðina í ruslagám. Rannsakendur alríkislögreglunnar FBI fundu hlutina síðar á nærliggjandi sorphaug.
Kadyrbayev viðurkenndi brot sín í dag, en lögmaður hans sagði að hann hefði einfaldlega gert skelfileg mistök og iðraðist á hverjum einasta degi. Hann ítrekaði einnig að Kadyrbayev hefði enga hugmynd haft um fyrirætlanir Tsarnaev-bræðranna, en eldri bróðir Dzhokhars og samverkamaður féll fyrir skotum lögreglu fjórum dögum eftir sprengingarnar. Þrír létust í sprengingunum og 264 slösuðust.
Saksóknarar í málinu hafa gert samkomulag við Kadyrbayev sem felur m.a. í sér að hann þarf ekki að sitja lengur en sjö ár í fangelsi. Tazhayakov hefur hins vegar engan slíkan samning gert og á yfir höfði sér allt að 25 ára fangelsi. Áætlað er að réttarhöld yfir sprengjumanninum Tsarnaev fari síðan fram í nóvember, en ákæra yfir honum er í 30 liðum og gæti hann átt yfir höfði sér dauðarefsingu.