Sjálfstæðissinnar sækja á í Skotlandi ef marka má niðurstöður nýrrar skoðanakönnunar sem fyrirtækið YouGov gerði og birtar voru í dag en þjóðaratkvæði fer fram í landinu 18. september næstkomandi um það hvort það eigi að verða sjálfstætt eða vera áfram hluti Bretlands.
Fram kemur í frétt AFP að 47% þeirra sem taki afstöðu með eða á móti sjálfstæði vilji að Skotland verði sjálfstætt ríki. 53% eru því andvíg. Niðurstöðurnar eru í samræmi við aðra skoðanakönnun sem birt var á föstudaginn. Um miðjan ágúst var forskot andstæðinga sjálfstæðs Skotslands 14% samkvæmt könnun YouGov og hefur það því minnkað mikið að undanförnu.