Ástrali hefur verið ákærður fyrir að hafa beitt tvíbura, sem hann átti með taílenskri staðgöngumóður, kynferðislegu ofbeldi.
Ekki er langt síðan annað mál tengt staðgöngumæðrun komst í kastljós fjölmiðla en þar neitaði ástralskt par að taka við barni sem taílensk staðgöngumóðir hafði eignast fyrir það þar sem barnið var fætt með Down's einkenni. Varð barnið (Gammy) með Down's einkennin eftir hjá staðgöngumóðurinni í Taílandi en ástralska parið tók hins vegar tvíbura þess með sér.
Taílenska móðirin, Siriwan Nitichad, samþykkti að ganga með barn fyrir manninn sem nú hefur verið ákærður og eiginkonu hans þar sem þeim tókst ekki að eignast barn saman. Nitichad sagði að eiginkonan hefði grátbeðið hana um að ganga með barnið þar sem eiginmann hennar dreymdi um að eignast barn.
Siriwan Nitichad, sem býr í Phetchabun-héraði norður af Bankok, segist hafa samþykkt að egg hennar yrðu notuð og fékk hún 5.500 ástralska dali, rúmar 600 þúsund krónur, fyrir.
Ilya Smirnoff, framkvæmdastjóri Childline Thailand, samtaka sem tengjast málinu, segist telja að börnin séu um sjö ára aldur í dag en ásakanirnar um barnaníð hafi komið upp fyrir tveimur árum.
Smirnoff segir að staðgöngumóðirin hafi verið mjög ánægð með að geta veitt fólkinu aðstoð en þegar hún hafi fengið upplýsingar um barnaníðið síðar hafi hún verið eyðilögð. „Hún er líffræðileg móðir þeirra þannig að þess vegna er enn skelfilega að fá upplýsingar um þetta.“
Móðir tvíburanna í Ástralíu hefur fengið stuðning frá hinu opinbera til þess að ala börnin upp en hjónaband hennar og föðurins rann út í sandinn einhverju eftir að þau komu heim til Ástralíu með börn sín.
Maðurinn neitar sök en hann er einnig sakaður um að dreifa barnaníði en málið verður tekið fyrir dóm síðar á árinu.
Siriwan Nitichad íhugar nú að krefjast þess að fá börnin til sín en hún er gift tveggja barna móðir í dag.