NATO stendur með Úkraínumönnum

Framkvæmdastjóri NATO, Anders Fogh Rasmussen og Úkraínuforseti, Petro Poroshenko.
Framkvæmdastjóri NATO, Anders Fogh Rasmussen og Úkraínuforseti, Petro Poroshenko. AFP

Aðildarríki NATO hafa sagst standa með Úkraínu í deilunni við Rússa, og sakað Rússa um tilraunir til að draga úr stöðugleika í austurhluta Úkraínu.

Á leiðtogafundi NATO sem fram fer í Cardiff í Wales í dag var krafist þess að Rússar kölluðu hersveitir sínar til baka frá Úkraínu og bindi endi á ólöglega innlimun Rússa á Krímskaga. Þetta kemur fram í frétt breska ríkisútvarpsins.

Petro Poroshenko, Úkraínuforseti, og leiðtogar aðildarsinna segja að samkomulag um vopnahlé geti náðst á morgun.

Rúmlega 2.600 hafa látið lífið í átökum úkraínska stjórnarhersins og aðskilnaðarsinna. Að sögn talsmanna Úkraínuhers hafa 837 hermenn fallið frá því að átök hófust í apríl.

Í yfirlýsingu frá framkvæmdastjóra NATO, Anders Fogh Rasmussen, hvatti hann Rússa til að „stíga til baka frá átökum og velja heldur leið friðar.“ Rasmussen segir samband NATO og Úkraínu vera sterkt og aðildarríki NATO séu ákveðin í að efla það enn frekar, þar á meðal með því að þróa getu Úkraínu og NATO til að vinna saman.

Rússar hafa hafnað því að útvega aðskilnaðarsinnum vopn og að hafa sent rússneskar hersveitir inn í Úkraínu.

Haft er eftir breskum embættismönnum að nýjar viðskiptaþvinganir ESB-ríkja og Bandaríkjanna gegn Rússum verði kynntar á föstudag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka