Stjórnvöld í Bandaríkjunum hafa staðfest að leiðtogi Shebab-samtakanna, Ahmed Abdi Godane, hafi verið drepinn í loftárás á búðir Shebab-samtakanna í Sómalíu fyrr í þessari viku. Hassan Sheikh Mohamud, forseti Sómalíu, þakkaði í dag Bandaríkjunum fyrir að hafa drepið Godane.
Godane, sem oft gengur undir nafninu Abu-Zubayr, er samkvæmt skilgreiningu bandaríska varnarmálaráðuneytisins einn af átta hættulegustu hryðjuverkamönnum heims sem ganga lausir.
Ahmed Abdi Godane hefur getið sér orð fyrir að vera bókhneigður, ljóðelskur og mælskur, en jafnframt svo grimmur og miskunnarlaus blóðhundur að jafnvel Osama bin Laden varð um og ó.