Ríkisstjórn Sómalíu varaði við því í morgun að liðsmenn hryðjuverkasamtakanna Shebab væru að undirbúa röð árása eftir að staðfest var að foringi þeirra hefði látist í loftárás Bandaríkjahers.
Ráðherra þjóðaröryggismála, Kalif Ahmed Ereg, sagði við fréttamenn að leyniþjónusta landsins hafi fengið upplýsingar um að Al-Shebab væri að undirbúa árásir á sjúkrahús, skóla og aðrar opinberar stofnanir. Biðlaði hann til íbúa landsins að standa með stjórnvöldum og láta vita ef þeir hafi upplýsingar um fyrirhugaðar árásir.
Í gær staðfesti varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna að Ahmed Abdi Godane, leiðtogi Shebab, hefur látist í árás Bandaríkjahers á mánudag. Godane er talinn hafa staðið á bak við fjöldann allan af hryðjuverkum í Afríku undanfarin ár en Godane, 37 ára, á að hafa hlotið þjálfun hjá talibönum í Afganistan. Hryðjuverkasamtökin Shebab breyttust frá því að vera lítill skæruliðahópur í ein öflugustu og hættulegustu hryðjuverkasamtök heims undir hans stjórn.
Hann bar ábyrgð á sprengjutilræðum í höfuðborg Úganda, Kampala, í júlí 2010 sem kostuðu 74 lífið. Godane er einnig talinn hafa verið hugsuðurinn á bak við fjöldamorðin í Westgate verslunarmiðstöðinni í höfuðborg Kenía í september í fyrra. Alls létust 67 manns í árásinni.