Katrín hertogaynja af Cambridge og Vilhjálmur Bretaprins eiga von á öðru barni sínu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá bresku konungsfjölskyldunni og þar segir að Elísabet Bretadrottning og aðrir ættingjar séu himinlifandi.
Fram kemur á vef breska ríkisútvarpsins að Katrín finni fyrir mikilli morgunógleði, líkt og þegar hún gekk með Georg prins, og er hún nú í umsjá lækna í Kensington-höll.
David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, skrifaði á Twitter á hann væri afar glaður fyrir hönd hjónanna.
Ekki hefur komið fram hversu langt Katrín er gengin með annað barn sitt.
Georg prins, frumburður hjónanna, kom í heiminn á St. Mary-sjúkrahúsinu í Paddington í London 22. júlí í fyrra. Hann er því rúmlega eins árs gamall og verður stóri bróðir á næsta ári þegar annað barn hjónanna kemur í heiminn. Tilkynnt var um væntanlegan erfingja bresku krúnunnar, Georg, 3. desember 2012.
Í kjölfar tilkynningarinnar bárust fregnir af því að Katrín væri með alvarlega morgunógleði, en í tilkynningunni sem barst í morgun kemur fram að ástandið sé svipað nú þegar hún á von á öðru barni sínu. Um ein af hverjum 200 konum finnur fyrir morgunógleði af því tagi sem Katrín á við að stríða. Auk þess að fá vökva í æð er henni gefið lyf sem slær á ógleðina.
„Ég veit ekki hvers vegna þeir kalla þetta morgunógleði, þeir ættu að kalla þetta allan-daginn-og-alla-nóttina-ógleði. Þetta er langt og leiðinlegt ferli en hún er á réttri leið,“ sagði Vilhjálmur í samtali við fjölmiðla.
Bretar voru harmi slegnir í kjölfar frétta um að hjúkrunarfræðingur Katrínar hefði fundist látin, en hún framdi sjálfvíg í kjölfar símahrekks ástralskrar útvarpsstöðvar. Útvarpsmenn á ástralskri útvarpsstöð hringdu á sjúkrahúsið og þóttust vera Elísabet drottning og Karl Bretaprins. Þeim var gefið samband við hjúkrunarfræðing sem var á vakt sem gaf samband við annan hjúkrunarfræðing sem tjáði sig um líðan Katrínar.
Veðbankar loguðu næstu mánuðina en veðjað var um allt milli himins og jarðar tengt væntanlegum ríkisarfa. Kyn, þyngd, háralitur, nafn eða keisaraskurður ... öllu veltu Bretar fyrir sér.
Loks kom prinsinn í heiminn og fékk hann nafn 24. júlí í fyrra, Georg Alexander Loðvík, og er hann þriðji í erfðaröðinni að bresku krúnunni á eftir afa sínum Karli og föður sínum Vilhjálmi.