Norski hryðjuverkamaðurinn, Hassan Abdi Dhuhulow 23 ára, sat klukkustundum saman og las sér til um öfgafulla íslamista. Hann er einn þeirra sem tók þátt í árásinni á Westgate verslunarmiðstöðina í Kenýa fyrir ári síðan. Sautján ára gamall var hann farinn að skrifa um sigur öfgahreyfinga í heiminum, segir í grein Aftenposten þar sem fjallað er um unga hryðjuverkamanninn sem lést í árásinni á verslunarmiðstöðina en alls voru fórnarlömb árásarinnar rúmlega sextíu talsins.
Dhuhulow var einn þeirra sem skrifaði inn á umræðuvettvanginn islam.no þar sem nokkrir öfgamenn hafa viðrað skoðanir sínar. Samkvæmt Aftenposten voru birtar yfir 2.500 færslur frá honum inn á öfgavefinn á tímabilinu október 2006 til maí 2008.
Einn þeirra öfgamanna sem hafði sem mest áhrif á Dhuhulow, sem fór frá því að vera fyrirmyndarnemandi í Noregi í fjöldamorðingja í Naíróbí í Kenýa, er Anwar al-Awlaqi. Hann var fyrsti bandaríski ríkisborgarinn, sem settur var á lista Bandaríkjamanna um vígamenn, sem á að taka af lífi. Hann var myrtur 30. september 2011 í loftárás á Jemen. Al-Awlaki hefur haft mikil áhrif á fjölmarga unga menn sem hafa aðhyllst öfgaíslam og má þar nefna bræðurna sem stóðu á bak við sprengjutilræðin við Boston-maraþonið og hryðjuverkamenn sem tóku þátt í árásinni á Bandaríkin 11. september 2001.
Þegar Hassan Abdi Dhuhulow er nítján ára nægir honum ekki lengur að skrifa öfgafullar orðsendingar á netið heldur fer frá Noregi. Fjórum árum síðar lést hann í verslunarmiðstöðinni. Á þeirri stundu er hann orðinn annar í röðinni yfir þá norsku hryðjuverkamenn sem hafa flest líf á samviskunni.
Kurteis drengur sem varð kaldlyndur morðingi