Borgarstjórinn umdeildi í Toronto í Kanada, Rob Ford, var í dag fluttur með sjúkrabifreið á sérstaka stofnun sem veitir meðferð við krabbaneini en hann var fluttur á sjúkrahús í gær eftir að rannsóknir leiddu í ljós að hann væri með krabbameinsæxli í maga.
Fram kemur í frétt AFP að Ford hafi snúið aftur til starfa í júní eftir að hafa verið tvo mánuði í fíkniefna- og áfengismeðferð. Hann leitaði til læknis vegna mikilla verkja sem höfðu verið viðvarandi í þrjá mánuði og fóru versnandi í vikunni. Ekki liggur fyrir hvort æxlið er góðkynja eða illkynja og er beðið niðurstaðna um það.
Ford hefur verið umdeildur vegna áfengis- og fíkniefnaneyslu sinnar og ýmissa hneykslismála í tengslum við hana. Hann sækist eftir endurkjöri í borgarstjórakosningunum sem fram fara október. Samkvæmt skoðanakönnunum er hann í öðru sæti á eftir íhaldsmanninum John Tory.