Bandaríska leyniþjónustan (CIA) segir að liðsmenn samtaka íslamista, Ríkis Íslam, séu mögulega 31.000 talsins í Írak og í Sýrlandi. Það eru þrefalt fleiri en menn töldu í upphafi.
Talsmaður CIA segir nýja matið byggja á upplýsingum sem hafa borist frá starsfmönnum leyniþjónustunnar frá maí til ágúst, að því er segir á vef BBC.
Ríki íslams hefur náð stórum landsvæðum í Írak undir sig og þá hafa liðsmenn samtakanna hálshöggvið nokkra gísla á undanförnum mánuðum. Það varð til þess að bandarísk stjórnvöld ákváðu að gera loftárásir á liðsmenn samtakanna í Írak.
John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, er nú staddur í opinberri heimsókn í Tyrklandi. Þar mun hann óska eftir stuðningi Tyrkja í baráttunni gegn samtökunum.
Haft er eftir bandarískum embættismönnum, að hershöfðinginn John Allen, sem er kominn á eftirlaun, muni fá það verkefni að setja saman alþjóðlegt bandalag sem mun hafa það hlutverk að berjast geng Ríki íslam.
Í gær höfðu 10 arabaríki lýst því yfir að þau væru reiðubúin að aðstoða Bandaríkin í aðgerðum sínum gegn samtökunum, bæði í Írak og í Sýrlandi.