Erfitt gæti reynst að mynda nýja ríkisstjórn í Svíþjóð

Nýjasta könnun Sifo-stofnunarinnar í Svíþjóð bendir til þess að hvorug meginfylkinganna í sænskum stjórnmálum fái meirihluta í þingkosningum á morgun og að Svíþjóðardemókratar komist í oddaaðstöðu.

Samkvæmt könnuninni er 6,2 prósentustiga munur á fylgi rauðgrænu flokkanna svonefndu og borgaralegu flokkanna fjögurra sem eru nú við völd undir forystu Fredriks Reinfeldt, forsætisráðherra og leiðtoga Hægriflokksins (Moderatarna).

Jafnaðarmannaflokknum er spáð 30,4% fylgi, svipuðu og í síðustu kosningum þegar kjörfylgi hans var minna en nokkru sinni fyrr frá árinu 1914. Jafnaðarmönnum, Vinstriflokknum og Umhverfisflokknum, er spáð 169 þingsætum, en þeir þurfa 175 til að fá meirihluta. Borgaralegu flokkunum fjórum er spáð 148 sætum og Svíþjóðardemókrötum 32, miðað við könnun Sifo sem gerð var 8. og 9. september. Hún bendir til þess að Hægriflokkurinn fái 22,6% fylgi og Svíþjóðardemókratar verði þriðji stærsti flokkur landsins með 8,9% fylgi, en hann fékk 5,7% atkvæðanna í síðustu kosningum. Hinir flokkarnir hafa sagt að ekki komi til greina að mynda ríkisstjórn með Svíþjóðardemókrötum.

Óttast glundroða

Gangi kosningaspárnar eftir verður leiðtoga Jafnaðarmannaflokksins, Stefan Löfven, falið að mynda nýja ríkisstjórn. Hugsanlegt er að hann myndi minnihlutastjórn með Vinstriflokknum og Umhverfisflokknum, eða jafnvel öðrum þeirra. Löfven gæti einnig reynt að mynda meirihlutastjórn með einum eða fleiri flokkum í núverandi ríkisstjórn. T.a.m. gæti hann fengið til liðs við sig Miðflokkinn, sem hefur meðal annars lagt áherslu á að bæta innviði og fjölga störfum í dreifbýlinu, eða Frjálslynda flokkinn sem hefur lagt áherslu á menntamál í kosningabaráttunni.

Stjórnmálaskýrendur telja að erfitt geti reynst að mynda meirihlutastjórn og nokkrir þeirra óttast jafnvel glundroða á þinginu.

Stjórn borgaralegu flokkanna fjögurra er með minnihluta á þinginu en hefur notið stuðnings Svíþjóðardemókrata í mörgum málum m.a. í skattamálum. Reinfeldt hefur þó reynt að einangra Svíþjóðardemókrata í málefnum hælisleitenda með samstarfi við Umhverfisflokkinn í þeim málaflokki. Líklegt er að Reinfeldt myndi slíka minnihlutastjórn aftur ef stjórnarflokkunum tekst að vinna upp 6,3 stiga forskot rauðgrænu flokkanna.

„Velferðarkerfið að hrynja“

„Velferðarkerfið er að hrynja vegna mikils straums flóttafólks til landsins... Hann kostar okkur ósköpin öll af peningum,“ segir Jimmie Åkesson, leiðtogi Svíþjóðardemókratanna. Flokkur hans hefur lagt áherslu á að gera þurfi róttækar breytingar á lögum um hælisleitendur til að fækka þeim. Gert er ráð fyrir að umsóknum um hæli fjölgi í um 80.000 í ár og flokkurinn vill að peningarnir, sem renna í þennan málaflokk, verði notaðir til að bæta velferðarkerfið og auka mannúðaraðstoð í öðrum löndum til að draga úr straumi flóttafólks.

Flokkurinn á rætur að rekja til hreyfinga sem voru bendlaðar við nýnasisma. Nokkrir forystumanna hans hafa verið sakaðir um kynþáttafordóma og einn þeirra sagði af sér eftir að birtar voru myndir af honum með armbindi nasista.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert