Foreldar Reeva Steenkamp, sem spretthlauparinn Oscar Pistorius skaut til bana á seinasta ári hafa nú harðlega gagnrýnt dóminn yfir Pistorius sem var kveðinn upp í gær.
Var Pistorius dæmdur fyrir manndráp en ekki fyrir morð.
Dómarinn, Thokozile Masipa, sagði við dómsuppkvaðninguna í gær að Pistorius hafi sýnt af sér vítavert gáleysi er hann skaut á baðherbergishurð íbúðar sinnar á Valentínusardag 2013. Taldi Pistorius að innbrotsþjófur væri inni á baðherberginu en Steenkamp var þar inni og lést hún af völdum skotsáranna.
Masipa sagði hins vegar í gær að ekki væri sannað að hann hafi ætlað sér að myrða Steenkamp og því var hann ekki dæmdur fyrir morð að yfirlögðu ráði.
Pistorius er laus gegn tryggingu þar til refsing hans verður kveðin upp í næsta mánuði.
Í samtali við fréttastofuna NBC sögðu foreldrar Steenkamp að réttlætinu hefði ekki verið framfylgt. June og Barry Steenkamp sögðust varla trúa því að kviðdómurinn hafi trúað sögu Pistorius. „Þessi dómur er ekki sanngjarn,“ sagði June. „Ég vil bara sannleikann. Reeva dó hræðilegum dauðdaga. Hann skaut í gegnum hurðina og ég get ekki trúað því að þeir trúi að það hafi verið slys.“
Aðspurð um hvað þau vonist eftir að Pistorius fái langan dóm sögðu þau það ekki skipta máli, skaðinn er hvort eð er skeður. „Mér er alveg sama hvað verður um Oscar,“ sagði June. „Það breytir engu þar sem að dóttir mín kemur aldrei aftur. Hann er enn á lífi en hún er farin. Að eilífu.“