Forsætisráðherra Bretlands, David Cameron, sagði í ávarpi í morgun fyrir utan skrifstofu sína í Downing-stræti í London, að hann væri himinlifandi yfir niðurstöðum þjóðaratkvæðisins í Skotlandi í gær þar sem meirihluti kjósenda höfnuðu sjálfstæði frá breska konungdæminu.
„Það hefði sært mig hjartasári að horfa upp á endalok Bretlands,“ sagði Cameron. Það ætti við um milljónir annarra. Ekki einungis í Bretlandi hefur víðar um veröld. Ástæðan væri sá árangur sem þær þjóðir sem mynduðu breska konungdæmið hefðu náð saman til þessa og gætu náð í framtíðinni. Koma þyrfti á fyrirkomulagi um valdaskiptingu sem væri sanngjörn fyrir íbúa Skotlands. Um leið yrði að sama skapi að taka tillit til íbúa Englands, Wales og Norður-Írlands.
Cameron sagði að umræðan sem átt hefði sér stað í aðdraganda þjóðaratkvæðisins hefði átt fullan rétt á sér. Skoski þjóðarflokkurinn hefði verið kjörinn til valda í Skotlandi árið 2011 í kjölfar loforðs um að slík kosning færi fram. Forsætisráðherrann sagði að bresk stjórnvöld hefðu getað reynt að koma í veg fyrir það en mikilvægt væri að taka slaginn þegar stórar ákvarðanir væru annars vegar en ekki forðast þær.