Alex Salmond, forsætisráðherra Skotlands, mun segja af sér í kjölfar niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði Skotlands sem fór fram í gær. 55,42% Skota vildu ekki að landið yrði sjálfstætt ríki. Hann hyggst einnig segja af sér sem leiðtogi Skoska þjóðarflokksins.
„Skotland hefur ákveðið, á þessu stigi, að gerast ekki sjálfstætt ríki,“ sagði Alex Salmond, forsætisráðherra Skotlands, þegar úrslitin í þjóðaratkvæðinu lágu fyrir í morgun. Kvaðst Salmond una niðurstöðunni en hann leiddi baráttu sjálfstæðissinna.