Endanlegar tölur í þjóðaratkvæðinu í Skotlandi sem fram fór í gær liggja fyrir en samkvæmt þeim höfnuðu skoskir kjósendur sjálfstæði frá breska konungdæminu með 55,3% atkvæða gegn 44,7%. Kjörsóknin var 84,6%.
Fram kemur í frétt AFP að samtals hafi 2.001.926 manns greitt atkvæði með því að vera áfram hluti Bretlands en 1.617.989 kosið með sjálfstæði. Metþátttaka var í kosningunum og hefur aldrei mælst meiri í kosningum innan Bretlands. Fyrra metið voru bresku þingkosningarnar árið 1950 þegar kjörsókn var 84%.