Um 45 þúsund manns, aðallega sýrlenskir Kúrdar, hafa farið yfir landamærin frá Sýrlandi til Tyrklands á síðasta sólarhringnum þar sem Ríki íslam, samtök herskárra íslamista, hafa sótt fram í norður-Sýrlandi. Þetta kemur fram á vef breska ríkisútvarpsins.
Tyrkir opnuðu fyrir landamærin á föstudag, fyrir Sýrlendinga sem hafa flúið kúrdíska bæinn Kobane af ótta við árásir Ríkis íslam. Þá hafa um 300 kúrdar farið frá Tyrklandi yfir til Sýrlands til að hjálpa til við að verja Kobane.
Samtökin stjórna nú stórum svæðum í Sýrlandi og Írak og hafa hertekið fjölda bæja í kringum Kobane.
Tyrkland, sem deilir landamærum með Írak og Sýrlandi, hefur tekið við yfir 847 þúsund flóttamönnum síðan uppreisnin gegn sýrlenska forsetanum Bashar al-Assad hófst fyrir þremur árum síðan.
Staðgengill forsætisráðherrans í Tyrklandi, Numan Kurtulmus, staðfesti fyrr í dag að 45 þúsund flóttamenn hefðu farið yfir landamærin á innan við 24 klukkustundum. „Ekkert land í heiminum getur tekið við 45 þúsund flóttamönnum á einni nóttu, komið þeim fyrir ósærðum og fundið fyrir þá skjól án erfiðleika,“ sagði hann.