Lögregla í Bretlandi hefur nú formlega óskað eftir gögnum um Arnis Zalkaln, 41 ára karlmann frá Lettlandi vegna rannsóknar á hvarfi hinnar 14 ára gömlu Alice Gross. Ekkert hefur sést til hennar í rúmlega þrjár vikur, eða frá 28. ágúst sl.
Síðast sást til hennar á öryggismyndavélum við skipaskurð nálægt Brentford Lock á leið frá ánni Thames. Myndir úr öryggismyndavélinni sýna Zalkaln hjóla sömu leið á svipuðum tíma og telur lögregla því víst að hann hafi séð stúlkuna þennan dag.
Réttarmeinafræðingar hafa leitað í húsi og garði Zalkalns síðustu daga í von um að finna vísbendingar um hvarf Gross.
Maðurinn hefur ekki notað bankareikning sinn eða farsíma frá 3. september sl. Þá hefur hann ekki komið heim, en hann á kærustu og barn. Hann skildi vegabréf sitt eftir heima.
Að sögn lögreglu í Lettlandi hefur hann ekki komið til landsins með flugvél síðustu daga. Aftur á móti er hugsanlegt að hann hafi komið til landsins með bíl eða lest.
Maðurinn er 41 ár og frá Lettlandi. Hann hlaut dóm í heimalandi sínu seint á síðustu öld fyrir að myrða eiginkonu sína og grafa hana í skógi. Arnis Zalkaln afplánaði 8 ára dóm og flutti til Bretlands árið 2007. Þá var hann einnig handtekinn, grunaður um að hafa áreitt 14 ára stúlku. Hann var þó aldrei kærður.
600 lögreglumenn hafa leitað að Gross síðustu vikur. Leitarsvæðið er umfangsmikið en meðal annars hefur verið leitað í ám og skurðum.
Leita að manni vegna hvarfs stúlku