Elísabet Bretadrottning malaði af ánægju þegar David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, upplýsti hana um niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar í Skotlandi.
Sem kunnugt er höfnuðu Skotar sjálfstæði í atkvæðagreiðslunni. Um 55% kjósenda vildi vera áfram hluti af Bretlandi á meðan 45% studdu sjálfstæði.
Cameron lét ummælin falla í samtali við Michael Bloomberg, fyrrverandi borgarstjóra New York, en sjónvarpstökumenn Sky News tóku upp samtalið upp á meðan þeir voru að fylgja eftir Cameron og Bloomberg í Bloomberg-byggingunni í New York.
Cameron sagði við Bloomberg að hann hefði hringt í Bretadrottningu til að láta hana vita að kosningin hefði endað vel. „Hún malaði alla leið í gegnum línuna. Ég hef aldrei heyrt neinn gleðjast jafn mikið,“ sagði breski forsætisráðherrann.
Fjallað er um málið á vef breska ríkisútvarpsins. Þar segir að breska konungshöllin hafi neitað að tjá sig um ummæli Camerons.
Hér má sjá Cameron og Bloomberg spjalla saman.