Leitin að hinni fjórtán ára gömlu Alice Gross, sem hvarf í vesturhluta Lundúnaborgar þann 28. ágúst, er orðin sú viðamesta hjá Lundúnalögreglunni frá hryðjuverkaárásinni 7. júlí 2005. Alls taka 600 lögreglumenn af átta lögreglustöðvum þátt í leitinni.
Samkvæmt fréttum BBC og Sky eru kafarar á vegum lögreglunnar nú að leita í ánni Brent en hnífur fannst í ánni í gær. Réttarmeinafræðingar rannsaka nú hvort hnífurinn tengist hvarfi skólastúlkunnar.
Dæmdur morðingi grunaður um aðild að hvarfinu
Lögreglan hefur leitað til lögreglunnar í Lettlandi um að kanna hvort Arnis Zalkaln, 41 árs smiður, sem er er grunaður um aðild að hvarfi stúlkunnar, hafi snúið til heimalandsins. Lettneska lögreglan hefur staðfest að Zalkalns hafi ekki komið með flugi til landsins en rannsakar hvort hann hafi komið þangað með öðrum leiðum.
Árið 2009 var Arnis Zalkalns kærður fyrir að hafa byrlað fjórtán ára gamalli stúlku ólyfjan og beitt hana kynferðislegu ofbeldi. Fyrrverandi unnustan hans og móðir tveggja barna hans hefur staðfest þetta við Telegraph.
Hún segir að Zalkalns hafi alltaf neitað ásökunum og sagt að hann hafi aðeins verið að hjálpa stúlkunni sem hafi verið dauðadrukkin. Stúlkan dró síðar vitnisburð sinn til baka og hann var aldrei ákærður.
Lögreglan hefur leitað á 25 ferkílómetra svæði auk þess sem leitað hefur verið í skurðum og ám í nágrenni Grand Union skipaskurðarins þar sem síðast sást til Gross.
Zalkalns, sem er dæmdur morðingi, er helst grunaður um að vera valdur að hvarfi Gross en hann hvarf þann 3. september. Zalkalns, sem sat í sjö ár í fangelsi fyrir að hafa myrt eiginkonu sína árið 1998, sást á fjallahjóli við skipaskurðinn fimmtán mínútum eftir að Alice Gross átti leið þar um síðdegis daginn sem hún hvarf. Lögregla fann hjólið á föstudag en hefur ekki viljað upplýsa um hvar.
Lögregla hefur biðlað til verslunareigenda eða annarra sem eru með öryggismyndavélar í Ealing og Hanwell að hafa samband svo hægt sé að skoða upptökur með tilliti til þess að upplýsa um hvarf stúlkunnar.
Jafnframt hafa tvær fasteignir sem tengjast Zalkalns verið rannsakaðar af lögreglu, meðal annars heimili hans í Ealing þar sem hann bjó með unnustu sinni og barni. Að sögn lögreglu hefur Zalkalns hvorki notað bankakort né farsíma síðan hann hvarf. Vegabréf hans fannst á heimili hans.
Fjölskylda Alice Gross sá hana síðast um hádegi þann 28 ágúst sl. er hún yfirgaf heimili sitt í Hanwell. Gross er 159 sm að hæð og afar grönn en hún þjáist af átröskun. Hún er með axlarsítt ljósbrúnt hár.
Fjölskyldan hefur sett upp síður á samfélagsmiðlum tengda hvarfinu (Facebook og Twitter) þar sem hún biður alla þá sem geta veitt einhverjar upplýsingar um hvarf stúlkunnar að hafa samband.
Sendi sms klukkan 15 og síðan var slökkt á símanum klukkan 17
Alice sendi föður sínum sms klukkan 15 daginn sem hún hvarf og voru þau send úr farsíma hennar. Vildi hún vita hvenær hann kæmi heim þennan dag. Kveikt var á símanum til klukkan 17 en síðan hefur verið slökkt á honum Bakpoki hennar fannst skammt frá stíg við ána Brent, milli Hanwell brúarinnar og Grand Union skipaskurðarins þann 2. september en farsími hennar var ekki í bakpokanum.
Samkvæmt fréttum breskra fjölmiðla átti Alice í góðu sambandi við fjölskyldu sína sem hefur reynt að aðstoða hana í baráttunni við átröskunina, að sögn lögreglu. Ekkert bendi til þess að hún hafi ætlað sér að strjúka að heiman. Að sögn móður hennar hefur átröskunin haft slæm áhrif á líðan unglingsstúlkunnar en dagurinn sem hún hvarf var ekkert öðruvísi en flestir aðrir dagar í lífi hennar og því ekkert sem bendi til þess að hún hafi horfið að eigin ósk.