Forsætisráðherra Bretlands, David Cameron, ætlar að biðja Elísabetu Englandsdrottningu persónulega afsökunar á ummælum sínum um að hún hafi bókstaflega malað þegar hann hringdi í hana til þess að tilkynna um niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar í Skotlandi. Breskir fjölmiðlar greina frá þess í dag.
Sem kunnugt er höfnuðu Skotar sjálfstæði í atkvæðagreiðslunni. Um 55% kjósenda vildi vera áfram hluti af Bretlandi á meðan 45% studdu sjálfstæði.
Cameron lét ummælin falla í samtali við Michael Bloomberg, fyrrverandi borgarstjóra New York, en sjónvarpstökumenn Sky News tóku upp samtalið upp á meðan þeir voru að fylgja eftir Cameron og Bloomberg í Bloomberg-byggingunni í New York.
Cameron sagði við Bloomberg að hann hefði hringt í Bretadrottningu til að láta hana vita að kosningin hefði endað vel. „Hún malaði alla leið í gegnum línuna. Ég hef aldrei heyrt neinn gleðjast jafn mikið,“ sagði breski forsætisráðherrann.
Cameron segist dauðskammast sín og sé algjörlega miður sín yfir þessu. Um einkasímtal hafi verið að ræða og hann hafi ekki átt að greina frá.