Yfir 150 símtöl frá fólki sem telur sig hafa upplýsingar um hvarf bresku skólastúlkunnar Alice Gross hafa borist Lundúnalögreglunni síðan í gær, en þá hóf lögreglan rannsókn á nákvæmri atburðarrás daginn sem Gross hvarf, 28. ágúst sl., eins og talið er að hún hafi verið. Þetta kemur fram á vef Sky news fréttastofunnar.
Fjölskylda Gross, sem er 14 ára gömul og hvarf fyrir fjórum vikum, sendi í gærmorgun frá sér hjartnæma beiðni til stúlkunnar um að koma heim svo fjölskyldan geti sameinast á ný. Fjölskyldan biðlaði einnig til almennings um að hafa samband ef þeir hafi einhverjar upplýsingar sem geti komið að gagni við leitina.
Líkt og fram hefur komið hvarf Alice Gross þann 28. ágúst í Ealing í vesturhluta Lundúnaborgar. Bakpoki hennar fannst skammt frá stíg við ána Brent, milli Hanwell brúarinnar og Grand Union skipaskurðarins þann 2. september. Á myndskeiði úr öryggismyndavél sást Gross ganga meðfram skipaskurðinum klukkan 16.26 þann 28. ágúst, en ekkert hefur spurst til hennar síðan.
Lögreglan hefur rúmlega fertugan Letta, Arnis Zalkaln, grunaðan um aðild að hvarfi hennar og hefur verið lýst eftir honum. Ekkert hefur spurst til Zalkaln frá 3. september og í síðustu viku leitaði lögreglan til starfsfélaga sinna í Lettlandi um að kanna hvort Zalkalns hafi snúið aftur til heimalandsins. Þar var hann dæmdur fyrir að hafa myrt eiginkonu sína árið 1998 og sat í fangelsi fyrir morðið í sjö ár.
Svæði í Elthorne Park, almenningsgarði í vestur-London sem rannsakað var af lögreglu gaf engar vísbendingar um hvarf Gross og telja lögreglumenn víst að svæðið tengist ekki rannsókn málsins.
„Við elskum þig og söknum þín“