Útgefandi breska dagblaðsins Daily Mirror hefur samþykkt að greiða 125 þúsund pund, 24,5 milljónir króna, í bætur til sex einstaklinga sem urðu fyrir barðinu á símahlerunum fjölmiðla í eigu fyrirtækisins.
Meðal þeirra er Sven-Göran Eriksson, fyrrverandi þjálfari enska landsliðsins, leikarinn Christopher Eccleston, sem fá 30 þúsund pund hvor, og fyrrverandi knattaspyrnumaðurinn Garry Flitcroft fær 20 þúsund pund frá Trinity Mirror, útgáfufélagi Daily Mirror, Sunday Mirror og People, að því er segir í frétt Guardian.
Fyrrverandi barnfóstra Davids og Victoriu Beckham, Abbie Gibson, fær greidd 15 þúsund pund og umboðsmaðurinn Phil Dale fær einnig 15 þúsund pund. Sama fjárhæð fer til Christie Roche, eiginkonu leikarans Shane Richie.
En útgáfufyrirtækið er ekki sloppið því tugir manna hafa lagt fram kröfu. Má þar nefna Lauren Alcorn, sem átti í ástarsambandi við knattspyrnumanninn Rio Ferdinand.
Fyrrverandi tengdadóttir Johns Majors, Emma Noble, leikarinn Darren Day og John Thompson eru meðal þeirra fjölmörgu sem krefja skaðabóta vegna símhlerana á vegum útgáfunnar.