Flugherinn tekur þátt í leitinni

Alice Gross
Alice Gross

Konunglegi breski flugherinn (RAF) hefur samið um að taka þátt í leitinni að 14 ára gömlu bresku skólastúlkunni Alice Gross sem saknað hefur verið í rúmar fjórar vikur. Samkvæmt Lundúnalögreglunni mun RAF veita greiningu úr lofti og finna þannig svæði sem hyggilegt væri að leita á. Breska ríkisútvarpið greindi frá þessu fyrr í dag. 

Myndir úr öryggismyndavél sem sýna Gross ganga meðfram Grand Union skipaskurðinum í Eal­ing í vest­ur­hluta Lund­úna­borg­ar þann 28. ágúst sl. eru helstu vísbendingar lögreglu um hvar hana er að finna. Bak­poki henn­ar fannst skammt frá stíg við ána Brent, milli Hanwell brú­ar­inn­ar og skipa­sk­urðar­ins þann 2. sept­em­ber.

Arnis Zalkalns, 41 árs gamall lettneskur morðingi er grunaður í málinu, en hann sást hjóla meðfram skipaskurðinum 15 mínútum eftir að Gross gekk sömu leið. Ekkert hefur spurst til Zalkalns síðan 3. september.

Þrjátíu rannsóknarlögreglumenn hafa um helgina farið yfir upptökur úr 300 öryggismyndavélum til að reyna að fá upplýsingar um hvar Gross gæti verið að finna. Fyrr í vikunni fór lögreglan yfir nákvæma atburðarás daginn sem Gross hvarf eins og hún er talin hafa verið, og skilaði það um 150 símtölum frá fólki sem taldi sig hafa upplýsingar um hvarfið.

Rannsóknarlögreglumenn hafa einnig heimsótt Riga, höfuðborg Lettlands, en segjast engar vísbendingar hafa um það að Zalkalns sé þar að finna.

„Við elskum þig og söknum þín“

Viðamesta aðgerð lögreglu í 9 ár

Arnis Zalkalns er grunaður um að hafa átt aðild að …
Arnis Zalkalns er grunaður um að hafa átt aðild að hvarfi Alice Gross. Ljósmynd/Lundúnalögreglan
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert