Lögregla hefur nú slætt Grand Union-skipaskurðinn í Ealing í vesturhluta Lundúnaborgar þar sem hin fjórtán ára gamla Alice Gross sást síðast hinn 28. ágúst sl. Umfangsmikil leit að stúlkunni hefur staðið yfir síðastliðinn mánuð, án árangurs.
Skurðurinn var slæddur í von um að munir í eigu hennar, til að mynda síminn hennar, myndu koma í leitirnar, en svo var ekki. Leit heldur því áfram að stúlkunni. Hlauparar sem tóku þátt í hálfu maraþoni í Ealing í gær báru gula borða til að vekja athygli á leitinni. Þá voru borðarnir einnig bundnir við tré og girðingar þar sem Alice sást síðast.
Konunglegi breski flugherinn (RAF) hefur samið um að taka þátt í leitinni að Alice. RAF mun veita greiningu úr lofti og finna þannig svæði sem hyggilegt væri að leita á.
Myndir úr öryggismyndavél sem sýna Gross ganga meðfram Grand Union-skipaskurðinum í Ealing í vesturhluta Lundúnaborgar hinn 28. ágúst sl. eru helstu vísbendingar lögreglu um hvar hana er að finna. Bakpoki hennar fannst skammt frá stíg við ána Brent, milli Hanwell brúarinnar og skipaskurðarins hinn 2. september.
Flugherinn tekur þátt í leitinni
„Við elskum þig og söknum þín“
Viðamesta aðgerð lögreglu í 9 ár