Lögreglan sem leitar að bresku unglingsstúlkunni Alice Gross, sem hvarf fyrir rúmum fjórum vikum, fann lík í ánni Brent í gærkvöldi. Samkvæmt upplýsingum frá Lundúnalögreglunni hefur fjölskylda stúlkunnar fengið upplýsingar um líkfundinn en bakpoki Gross fannst við ána. Fram kom í máli yfirmanns rannsóknarinnar í morgun að rannsóknin sé nú morðrannsókn.
Að sögn lögreglu ganga fjölskylda og vinir Alice Gross í gegnum erfiða tíma og verður upplýst nánar um málið á eftir, samkvæmt frétt Guardian.
Leitin að Alice Gross, 14 ára, er viðamesta aðgerðin sem fram hefur farið hjá Lundúnalögreglunni frá hryðjuverkaárásunum á Lundúnir fyrir rúmum níu árum.
Eins og fram hefur komið hvarf Alice Gross þann 28. ágúst í Ealing í vesturhluta Lundúnaborgar. Bakpoki hennar fannst skammt frá stíg við ána Brent, milli Hanwell brúarinnar og Grand Union skipaskurðarins þann 2. september.
Lögreglan hefur rúmlega fertugan Letta grunaðan um aðild að hvarfi hennar og hefur verið lýst eftir honum. Ekkert hefur spurst til Arnis Zalkaln frá 3. september. Samkvæmt BBC er hann enn talinn grunaður um að bera ábyrgð á hvarfi stúlkunnar á sínum tíma. Hans er nú leitað en Zalkaln sat í fangelsi í heimalandi sínu fyrir að hafa myrt eiginkonu sína árið 1998.
Í tilkynningu sem lögreglan sendi frá sér snemma í morgun kemur fram að við leitina að Alice Gross hafi leitarlið fundið lík í ánni Brent í gærkvöldi. Búið sé að ná líkinu úr ánni og farið með það af vettvangi. Fjölskylda Alice hefur verið upplýst um líkfundinn en nánari greining bíður krufningar og réttarmeinarannsóknar.
Samkvæmt Sky talar lögreglan nú um morðrannsókn ekki leit og fram kemur í viðtali við Graham McNulty, yfirmann í Lundúnalögreglunni, að talsvert hafi verið gert til þess að líkið myndi ekki finnast.
„Þetta er nú morðrannsókn,“ segir McNulty, samkvæmt Sky. Hann hvetur alla sem geta veitt upplýsingar um málið að hafa samband við lögreglu.