Lögreglan leitar til almennings

Alice Gross
Alice Gross PA / Metropolitan police

Lögreglan í Lundúnum biður almenning um að veita aðstoð við rannsókn á morðinu á Alice Gross fjórtán ára. Lík hennar fannst í ánni Brent í gærkvöldi en hennar hafði verið saknað í tæpar fimm vikur.

Graham McNulty, yfirmaður í lögreglunni ræddi við fjölmiðla í morgun og kom fram í máli hans að ekki væri búið að bera formlega kennsl á líkið en fjölskylda Alice Gross hafi strax í gærkvöldi verið upplýst um líkfundinn og að eðlilega væru fréttirnar hörmulegar fyrir þá sem hefðu komið að leitinni að Alice.

„Þetta er nú morðrannsókn og ég bið almenning um að hjálpa okkur að finna þann sem ber ábyrgðina,“ sagði McNulty í morgun. Hann hvetur alla þá sem geta veitt upplýsingar um morðið að hafa samband við lögreglu. Það sé ekki orðið of seint að veita upplýsingarnar. 

Hefur áhrif á allt samfélagið

McNulty segir að hugur hans sé hjá fjölskyldu Alice á þessum erfiðum tímum og hann biður fjölmiðla um að virða einkalíf þeirra. Hann þakkaði einnig íbúum Ealing fyrir stuðning þeirra en morðið hafi gríðarleg áhrif á samfélagið allt. 

„Þú þarft ekki annað en að ganga um nærliggjandi götur til þess að finna hvaða áhrif hvarf Alice hefur haft á samfélagið allt,“ sagði McNulty á fundi með blaðamönnum í morgun.

Hann segir að rannsókn á vettvangi muni taka töluverðan tíma en það sé mikilvægt að safna saman öllum sönnunargögnum sem geta komið að gagni við leitina að þeim sem ber ábyrgð á þessum hræðilega glæp.

Yfir 300 lögregluþjónar hafa komið að rannsókninni sem er sú viðamesta síðan hryðjuverkin voru framin í Lundúnum 7. júlí árið 2005. Hefur jafnvel flugherinn komið að leitinni. 

Á mánudag var hluti Grand Union skurðarins slægður en vitað var að Alice hafði gengið meðfram skurðinum nokkru áður en hún hvarf. Vonast var til þess að sími hennar myndi finnast þar en leitin  bar engan árangur.

Alice sást síðast þar sem hún gekk meðfram Grand Union skurðinum þar sem hann fer undir Trumpers Way klukkan 16:26 þann 28. ágúst sl.

Dæmdur morðingi, Lettinn Arnis Zalkalns, sást hjóla sömu leið á eftir unglingsstúlkunni á öryggismyndavélum og er hann grunaður um að hafa átt aðild að hvarfi hennar.

Breska lögreglan vinnur nú með yfirvöldum í Lettlandi um að finna hann en Zalkalns hvarf sporlaust þann 3. september sl. Áður hefur lögreglan viðurkennt að þrátt fyrir að Zalkalns finnist í Lettlandi þá hafi hún ekki heimild til þess að fá hann framseldan.

Zalkalns, sem er byggingaverkamaður, starfaði í Isleworth við smíðar en talið er að hann hafi komið til Bretlands árið 2007. Bresk yfirvöld hafa verið harðlega gagnrýnd fyrir að hafa ekki haft upplýsingar um feril hans í heimalandinu en hann var dæmdur þar árið 1998 fyrir morð á eiginkonu sinni. Hans er enn leitað.

Tímalínan frá hvarfi Alice Gross:

28. ágúst fór hin 14 ára gamla Alice að heiman í Hanwell, í vesturhluta Lundúnaborgar klukkan 13. Hún séest á öryggismyndavélum á gangi við Grand Union skurðinn klukkan 15:45 við Brentford Lock. Síðast sést hún ganga meðfram skurðinum undir brúna í átt að Hanwell klukkan 16:26.

1. september biður fjölskylda hennar Alice að hafa samband þar sem þau sakni hennar sárlega. Lögreglan byrjar að ganga hús úr húsi í nágrenninu og leitar í almenningsgörðum og á opnum svæðum.

4. september birtir lögreglan myndir úr öryggismyndavélum af Alice og greinir frá því að bakpoki hennar hafi fundist. Skór hennar hafi verið í bakpokanum. Gross fjölskyldan sendir frá sér nýtt ákall þar sem móðir hennar Rosalind Hodgkiss segir: Við viljum fyrst og fremst segja Alice að við söknum hennar og við elskum hana... Hún biður dóttur sína að koma heim strax.

6. september handtók lögreglan 25 ára gamlan mann á Ealing svæðinu grunaðan um morð.

7. september var annar maður, 51 árs, handtekinn grunaður um morð. Lögreglan segir að handtökur þeirra séu ekki tengdar og að enn sé um leit að horfinni manneskju að ræða.

8. september heldur lögreglan áfram að yfirheyra þann sem fyrst var handtekinn og sá sem var handtekinn daginn áður er látinn laus úr haldi án frekari upplýsinga.

9. september er yngri maðurinn látinn laus gegn tryggingu. 

16. september greinir lögreglan frá því að hún leiti Arnis Zalkalns, 41 árs verkamanns frá Lettlandi, í tengslum við hvarf Alice Gross. Zalkalns sást síðast á heimili sínu í Ealing þann 3. september. Vitað er að Zalkalns fer iðulega þessa sömu leið til vinnu og Alice sást síðast. 25 ára gamli maðurinn, sem var handtekinn fyrr í mánuðinum, fær þær upplýsingar að hann sé ekki grunaður um neitt misjafnt.

18. september staðfestir lögregla að Zalkalns sé grunaður um aðild að hvarfi Alice og að hann hafi verið dæmdur fyrir morð á eiginkonu sinni árið 1998. Hann hafi setið í fangelsi í sjö ár fyrir morðið og hann hafi verið handtekinn grunaður um kynferðisbrot í Ealing árið 2009 án þess að vera nokkurn tíma ákærður í því máli.

20. september greinir lögreglan frá því að leitin að Gross sé stærsta aðgerð hennar frá hryðjuverkaárásinni árið 2005.

25. september, fjórum vikum eftir hvarf stúlkunnar sendir fjölskylda hennar frá sér hjartnæmt ákall og lögreglan endurtekur atburðarásina líkt og hún er talin vera er Alice hvarf.

30. september finnst lík í Brent ánni í vestur Lundúnum. Greinilegt sé að sá sem kom líkinu fyrir hafi lagt mikið á sig við að fela líkið.

1. október greinir lögreglan frá því að rannsókn á hvarfi Alice Gross sé nú morðrannsókn.

Myndskeið sem fjölskylda Alice Gross birti þann 22. september í þeirri von að hvarf hennar myndi upplýsast.

Vefur lögreglunnar

Alice Gross
Alice Gross PA / Metropolit­an police
Arnis Zalkalns er grunaður um að hafa átt aðild að …
Arnis Zalkalns er grunaður um að hafa átt aðild að hvarfi Alice Gross. Ljósmynd Lundúnalögreglan
Kort sem lögregla birti vegna hvarfs Alice Gross
Kort sem lögregla birti vegna hvarfs Alice Gross
Alice Gross
Alice Gross
Alice Gross hvarf þann 28. ágúst sl.
Alice Gross hvarf þann 28. ágúst sl. Veggspjald þar sem lýst er eftir stúlkunni
Alice Gross
Alice Gross Af Facebook síðunni Find Alice Gross
Twitter færsla lögreglunnar í Mocto
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert