Stúdentar funda með yfirvöldum

Mótmælendur fjölmenntu fyrir utan heimili Leung í kvöld.
Mótmælendur fjölmenntu fyrir utan heimili Leung í kvöld. AFP

Stúdentaleiðtogarnir sem hafa leitt mótmælin í Hong Kong hafa samþykkt að funda með fulltrúum yfirvalda í Hong Kong. Á fundinum munu leiðtogarnir ræða kröfur mótmælenda en þeir hafa engu að síður svarið að halda mótmælunum áfram þar til kröfum þeirra um frjálsar kosningar hefur verið mætt.

Mótmælin hafa verið nefnd Regnhlífabyltingin eftir að mótmælendur vörðu sig gegn táragasi óeirðalögreglu með regnhlífum. Þau eru að stóru leiti drifin áfram af Bandalagi stúdenta í Hong Kong (The Hong Kong Federation of Students) sem hafa með hjálp almennings og fleiri hópa tekið yfir mörg helstu viðskiptahverfi og umferðaræðar Hong Kong. 

Þrátt fyrir að samþykkja að funda fara forsvarsmenn stúdentabandalagsins staðfastlega fram á að C. Y. Leung, æðsti embættismaður yfirvalda í Hong Kong, segi af sér. 

„C.Y. Leung hefur þegar misst öll sín heilindi og svikið traust fólksins. Hann hefur ekki einungis neitað almenningi um raunverulegar pólitískar umbætur því hann skipaði einnig fyrir um róttækar og ofbeldisfullar aðgerðir með táragasi gegn friðsamlegum mótmælendum. Afsögn hans er aðeins tímaspursmál,“ segir í tilkynningu stúdentabandalagsins.

Leung sagði hinsvegar á fjölmiðlafundi fyrr í dag að hann hyggist ekki segja af sér þar sem hann þurfi að halda áfram að vinna að kosningunum.

Í ágúst tilkynntu yfirvöld í Kína að íbúar Hong Kong myndu fá að kjósa sinn næsta leiðtoga sjálf en að aðeins þeir sem væru samþykktir af nefnd hliðhollri kínverskum stjórnvöldum fengju að bjóða sig fram. Mótmælendur hafa kallað fyrirkomulagið gervilýðræði og hyggjast ekki sleppa götum Hong Kong úr greipum sínum fyrr en yfirvöld samþykkja frjálsar kosningar.

Leung hélt fjölmiðlafund þar sem hann hafnaði kröfu mótmælenda um …
Leung hélt fjölmiðlafund þar sem hann hafnaði kröfu mótmælenda um afsögn hans en bauð sáttafund þess í stað. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka