Systir Alice Gross, fjórtán ára gamallar breskrar stúlku sem var myrt nýverið, gagnrýnir breska ríkisútvarpið harðlega fyrir að hafa notað sér harm fjölskyldunnar í útvarpsþættinum Question Time.
Nina Gross segir það ósmekklegt af BBC að tengja umfjöllun þáttarins við þann harmleik sem fjölskyldan gengur í gegnum. Þann 30.september fannst lík Alice í ánni Brent en hennar hafði verið saknað frá 28. ágúst. Ljóst er að hún var myrt.
Í Twitter færslu Ninu Gross kemur fram að það sé fram úr hófi tillitslaust af BBC að nýta sér harmleik fjölskyldunnar í pólitískri umræðu. Þetta sé sorgartími hjá fjölskyldunni og biður hún BBC um það í framtíðinni að virða óskir fjölskyldunnar um að fá næði til að syrgja. „Þetta er persónulegur harmleikur sem við viljum glíma við í einrúmi frekar en að þurfa að óttast það að einhver nýti sér hann í pólitískum tilgangi.“ Hún bætir við að slík umræða sé einfaldlega ekki tímabær á þessari stundu.
Færslurnar skrifar hún á Twitter vef BBC, að því er fram kemur í Guardian. Stjórnendur Question Time biðjast afsökunar í kjölfarið: Kæra Nina. Okkur þykir leitt að heyra þetta og við biðjumst innilegrar afsökunar á því ef umfjöllun okkar í kvöld særði eða móðgaði ykkur. Nina Gross svarar að bragði og þakkar fyrir.
Lettinn Arnis Zalkalns er af lögreglu helst grunaður um að hafa orðið Alice að bana en hann sat í fangelsi í Lettlandi í sjö ár fyrir að hafa myrt eiginkonu sína. Hann er talinn hafa flutt til Bretlands árið 2007 en umræða hefur verið um hvort bresk yfirvöld hafi vitað af dómi hans í Lettlandi.
Í upphafi Question Time í gærkvöldi sagði stjórnandi þáttarins, David Dimbleby, vað umræðan í þættinum tengist morðinu á Alice Gross og hvort það eigi að vera frelsi til að ferðast óhindrað yfir landamæri Evrópu. Meðal annars fyrir dæmda glæpamenn.
Líkið vafið inn í plast og komið vandlega fyrir
Evening Standard greinir frá því í morgun að gera þurfi frekari rannsókn á líki Alice Gross en líkt og kom fram á mbl.is í gærkvöldi þá liggur dánarorsök ekki fyrir. Lík Gross fannst í ánni, vafið inn í plast og komið vandlega fyrir undir þungum trjábolum. Óttast er að erfiðlega gangi að finna lífsýni sem geti bent á mögulegan morðingja þar sem lík hennar hefur verið í votri gröf í meira en mánuð.
Lík hennar fannst í ánni Brent í einungis nokkura metra fjarlægð frá þeim stað sem bakpoki Alice fannst og í um fimm mínútna fjarlægð frá þeim stað sem hún sást síðast á lífi á öryggismyndavélum. Kafarar höfðu áður leitað á þessum slóðum í ánni en samkvæmt Lundúnalögreglunni hafði morðingi hennar lagt töluvert á sig til þess að fela líkið.
Morðið skipulagt fyrirfram
Afbrotafræðingur við Birmingham háskólann, David Wilson, segir í samtali við Evening Standard að ýmislegt bendi til þess að um skipulagðan glæp sé að ræða og að Gross hafi ekki verið valin af handahófi. Máli sínu til stuðnings bendir hann á að morðingjanum hafi tekist að forðast öryggismyndavélar og að nokkur yrði þess var er morðið var framið og líkinu komið fyrir.