Lundúnalögreglan telur að líkið sem fannst í Boston Manor garðinum í dag sé af Arnis Zalkalns en þar sem líkið sé mjög illa farið sé ekki hægt að staðfesta það að svo stöddu.
Zalkalns, 41 árs, var talinn hafa borið ábyrgð á hvarfi Alice Gross, 14 ára gamallar stúlku sem hvarf þann 28. ágúst sl. Lík hennar fannst í ánni Brent, skammt frá Boston Manor garðinum, á þriðjudag.
Síðast sást til Zalkalns þann þriðja september sl. en hann sást á öryggismyndavélum á sömu slóðum og Gross daginn sem hún hvarf. Hann sat í fangelsi í heimalandinu, Lettlandi, í sjö ár fyrir að hafa myrt eiginkonu sína.
Í tilkynningu frá Lundúnalögreglunni í kvöld kemur fram að líkið sem hafi fundist í Boston Manor garðinum sé illa rotnað og þrátt fyrir að formlegri rannsókn sé ekki lokið þá sé líklegt að um Zalkalns sé að ræða.
Leitin að Gross er viðamesta aðgerð lögreglunnar í Lundúnum frá hryðjuverkunum árið 2005 sem kostuðu 52 lífið.