Lögreglan er að fjarlægja líkið sem fannst í Boston Manor garðinum í vesturhluta Lundúna í gær. Samkvæmt frétt Sky er það talið vera af Arnis Zalkalns og að hann hafi hengt sig í skóglendi í garðinum í einungis 1,6 km fjarlægð frá þeim stað er lík Alice Gross fannst.
Zalkalns hvarf af heimili sínu í Ealing viku eftir að síðast spurðist til Alice Gross, 14 ára gamallar stúlku. Talið er að hún hafi verið myrt við Grand Union skipaskurðinn þar sem hún var á leið heim til sín í Hanwll. Lík hennar fannst í ánni Brent á þriðjudag, tæpum fimm vikum eftir að hún hvarf.
Sky hefur eftir talsmanna Lundúnalögreglunnar að ekki hafi formlega verið borin kennsl á líkið í skóginum en það sé að öllum líkindum af Zalkalns og hefur sambýliskona hans verið upplýst um það.
Zalkalns sást á öryggismyndavélum hjóla sömu leið og Alice Gross fór þann 28. ágúst sl. Hann starfaði sem byggingaverkamaður í Isleworth en talið er að hann hafi flutt til Bretlands árið 2007 eftir að hafa afplánað sjö ára fangelsi fyrir morð á eiginkonu sinni í heimalandinu, Lettlandi.
Hann var handtekinn í Lundúnum árið 2009 grunaður um kynferðislegt ofbeldi gagnvart fjórtán ára gamalli stúlku en var ekki ákærður.
Ekki liggur fyrir hver dánarorsök Alice er en lík hennar hafði verið vandlega komið fyrir í ánni svo erfitt var að finna það. Zalkalns hefur ekki snert bankareikninga sína né farsíma síðan 3. september.