Tveir hópar leigumorðingja, sem tengjast lögreglunni, hafa játað að hafa myrt 17 af 43 kennaranemum sem hefur verið saknað síðan í september í suðurhluta Mexíkó. Óttast er að lík nemanna sé að finna í fjöldagröf sem fannst á laugardagskvöldið eftir ábendingu.
Inaky Blanco, yfirsaksóknari í Guerrero-ríki, segir að það taki 15 daga hið minnsta að bera kennsl á líkin 28 sem eru í fjöldagröfinni en einhver þeirra eru illa brunnin.
Fjöldagröfin er á hæð í Pueblo Viejo, skammt frá borginni Iguala en þar sáust nemarnir síðast hinn 26. september. Kveikt hafði verið í fjöldagröfinni.
Námsmennirnir hurfu eftir að lögregla í Iguala hóf að skjóta á rútur sem fluttu námsmennina, að sögn Blancos. Hann segir að liðsmenn tveggja glæpagengja hafi tekið þátt í árásunum en sex létust, 25 særðust og 43 hurfu þetta kvöld.
Námsmennirnir voru sakaðir um að hafa stolið rútunum en þeir höfði komið til borgarinnar til að taka þátt í mótmælum. Blanco segir að rannsókn standi yfir á því hvers vegna lögregla réðst á ungmennin.
Málið er eitt það skelfilegasta sem hefur komið upp í Mexíkó frá því að stjórnvöld skáru upp herör gegn eiturlyfjagengjum sem ráða lögum og lofum í landinu. Alls hafa 80 þúsund manns týnt lífi í tengslum við þá baráttu.
Í gærmorgun fóru foreldrar einhverra af námsmönnunum og hundruð skólafélaga út á hraðbrautina milli höfuðstaðar Guerrero, Chilpancingo, og Acapulco og létu í ljós reiði sína í garð yfirvalda. Einhverjum foreldranna höfðu verið sýndar myndir af líkum en þeir sögðust ekki trúa því að myndirnar væru af börnum þeirra.
„Sem foreldrar höfnum við þessu. Þetta eru ekki ungmennin. Við vitum að þeim er haldið á lífi,“ segir Manuel Martinez, en sonur hans er meðal þeirra sem er saknað.
Ættingjar hafa gefið lífsýni til þess að kanna hvort þau samsvari lífsýnum úr líkunum í fjöldagröfinni.