Kassig segist óttast dauðann

Bandaríski gíslinn Peter Kassig skrifaði foreldrum sínum bréf í júní þar sem hann segist vera hræddur við að deyja í haldi vígamanna í samtökunum Ríki íslam. Foreldrar hans hafa birt bréf sem Kassig sendi þeim en í myndskeiði sem sýnir aftöku breska hjálparstarfsmannsins Alans Hennings kemur fram að Kassig sé sá næsti sem verður tekinn af lífi.

Kassig er 26 ára og fyrrverandi hermaður í Bandaríkjaher. Hann var sendur til Íraks árið 2007 en leystur frá störfum af heilsufarsástæðum. Hann nam stjórnmálafræði við Butler-háskólann í Indianapolis frá 2011 til 2013. Vorið 2012 fór hann til Beirút, höfuðborgar Líbanons, þar sem hann kynnti sér málefni Sýrlands og tók áfanga í arabískum fræðum.

Árið 2012 setti hann á laggirnar hjálparsamtök (Sera) sem sérhæfa sig í að veita flóttamönnum og fólki sem hefur hrakist á brott frá heimaslóðum aðstoð. Samtökin störfuðu einkum með sýrlensku flóttafólki.

Kassig var rænt hinn 1. október í fyrra er hann var á leið til Deir Ezzour í austurhluta Sýrlands. Hann snerist til íslam í haldi mannræningjanna en foreldrar hans, Ed og Paula Kassig, segja að hann hafi gert það af fúsum og frjálsum vilja einhvern tíma á tímabilinu október til desember í fyrra er hann deildi klefa með heittrúuðum sýrlenskum múslíma. 

Þau segja að áður hafi Kassig tekið þátt í Ramadan-föstunni í júlí-ágúst 2013, áður en hann var tekinn höndum. Þá hafi hann talað um hversu mikil andleg áhrif fastan hafi haft á hann. Kassig tók upp nafnið Abdul-Rahman þegar hann tók upp múhameðstrú og hefur fylgt trúskiptunum fast eftir. Meðal annars biður hann fimm sinnum á dag.

Samtökin Ríki íslam réttlæta dráp á vestrænum gíslum sem hefnd fyrir loftárásir Bandaríkjahers á svæði þar sem Ríki íslam ræður ríkjum í Sýrlandi og Írak. Hingað til hafa samtökin staðið við hótanir sínar um hvaða gísl verði næst tekinn af lífi en alls hafa fjórir gíslar verið teknir af lífi með þessum hætti.

Foreldrar Kassigs sögðu þegar þau birtu bréfið frá syni sínum að þau myndu áfram þrýsta á stjórnvöld um að hætta árásum á Ríki íslam. Búið var að fjarlægja hluta af textanum áður en bréfið var birt opinberlega þar sem um viðkvæmar persónulegar upplýsingar væri að ræða.

„Ég er eðlilega hræddur við að deyja en það sem er erfiðast er að vita ekki, velta fyrir sér, vona og velta fyrir sér hvort ég eigi yfir höfuð að vona. Ég er mjög dapur yfir því að þetta skuli hafa gerst og þess sem þið heima fyrir hafið þurft að ganga í gegnum,“ skrifar Kassig í bréfinu.

Lokaorð bréfsins eru: „Ég elska ykkur.“

Peter Kassig
Peter Kassig AFP
Peter Kassig
Peter Kassig AFP
Peter Kassig
Peter Kassig AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert