Segist ekki hafa verið í tölvuleik

Rúmlega 300 manns létu lífið í slysinu.
Rúmlega 300 manns létu lífið í slysinu. AFP

Skipstjóri ferjunnar sem hvolfdi og sökk í Suður-Kóreu í apríl á þessu ári segir að hann hafi gert mistök þegar hann ákvað að yfirgefa óreynda áhöfnina og fara sjálfur frá borði þegar henni hvolfdi.

Réttarhöld yfir skipstjóranum standa nú yfir í Suður-Kóreu og bar hann vitni í morgun. Hann neitaði því að hafa verið að spila tölvuleiki í símanum sínum þegar skipið lenti í ógöngum en nokkrir í áhöfn skipsins hafa sakað hann um það.

Rúmlega 300 manns létu lífið í ferjuslysinu og voru flestir þeirra nemendur í skólaferðalagi.

Niðurstöður rannsóknar á slysinu voru birtar í gær en þar kemur fram að þrír þættir hafi orðið til þess að slysið varð. Skipið var ofhlaðið, ólöglegar breytingar höfðu verið gerðar á því og þá stóðu þeir sem stjórnuðu skipinu þennan dag sig illa.

Skipstjórinn sagði fyrir dómi í morgun að hann vissi að sá sem stýrði skipinu þennan dag hefði aðeins starfað á því í sex mánuði og hefði takmarkaða reynslu og þekkingu til að stjórna skipum.

Var hann þá spurður hvort hann hefði ekki átt að taka við stýri skipsins þegar það kom á svæði þar sem erfiðara var að stýra. „Jú, ég geri ráð fyrir því,“ sagði skipstjórinn þá.

Aðspurður hvar hann hefði verið þegar ferjan lenti í ógöngum svaraði skipstjórinn að hann hefði verið í klefa sínum að reykja og að skipta um föt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert