Malala: Stúlkan sem lifði af

Malala Yousafzai var tilnefnd til friðarverðlauna Nóbels annað árið í röð í ár. Margir urðu fyrir vonbrigðum í fyrra þegar ljóst var að hún varð ekki fyrir valinu og er gleði hennar og þeirra sem taka undir málstað hennar því líklega enn meiri fyrir vikið í dag. 

Malala er sautján ára og kemur frá Pakistan. Hún varð heimsfræg eftir að Talíbani skaut hana í höfuðið þegar hún var á leið heim úr skólanum, en hún hafði barist ötullega fyrir réttindum kvenna í landinu. Malala leggur ríka áherslu á að stúlkur hafi aðgang að menntun, líkt og drengir.

Stuðningur eða fyrirlitning?

Á meðan íbúar Vesturlanda hafa margir hverjir hælt henni fyrir réttindabaráttuna einkennist afstaða íbúa á heimaslóðum hennar í Swat-dal í norðvesturhluta Pakistans af tortryggni og jafnvel fyrirlitningu.

Skóla­syst­ur Malala í Ming­ora styðja hana þó heils­hug­ar og vilja að land þeirra verði þekkt fyr­ir annað en talib­ana og sprengj­ur. „Malala er öðrum sönn fyr­ir­mynd, ekki aðeins okk­ur held­ur öll­um Pakistön­um,“ seg­ir Reh­ana Noor Bacha, fjór­tán ára stúlka í bæn­um

Friðsæll dalur varð vettvangur átaka

Tiltölulega friðsælt var á heimaslóðum Malölu í Swat-dalnum þegar hún fæddist árið 1997. Fólkið var íhaldsamt og trúað og heimamenn höfðu í langan tíma lagt ríka áherslu á að börn þeirra hefðu aðgang að menntun. Það sama er ekki hægt að segja um önnur héruð í norðausturhluta Pakistan. 

Þegar Malala fæddist hafði faðir hennar meðal annars náð að láta draum sinn um að stofna skóla rætast. Í dag stunda þúsund nemendur nám í skólanum, bæði stúlkur og drengir. 

Eftir hryðjuverkaárásina á Bandaríkin 11. september árið 2001 breyttist margt í landinu. Stríð hófst í Afganistan og Talíbanar, sem stýrt höfðu landinu, flúðu yfir landamærin til Pakistan. Íbúar í Swat-dalnum urðu brátt varir við liðsmenn Talíbana.

Árið 2007 tóku þeir öll völd í dalnum og í árslok 2008 gaf leiðtogi þeirra út opinbera tilkynningu um að stúlkur ættu að hætta  að ganga í skóla. 

Stúlkan sem lifði af 

Fjölmiðlar sýndu ástandinu á svæðinu mikinn áhuga og fór svo að Malala hóf að skrifa nafnlausa dagbók á BBC um reynslu sína af því að ganga í skóla undir hótunum Talíbana. Þrátt fyrir að dagbókin væri nafnlaus, varð hún fljótt þekkt í landinu fyrir að tala opinberlega um réttindi barna. 

Þann 9. október árið 2012 var Malala skotin í höfuðið á leið sinni heim úr skólanum. Kúlan fór inn í höfuð Malölu fyrir ofan vinstri augabrún og þangað í gegnum hálsinn og út um bakið. Rannsókn leiddi í ljós miklar bólgur. Hún gekkst undir stóra aðgerð á höfði og var titanium-plötu komið fyrir í höfði hennar.

Malala lifði árásina af og stundar nú nám við einkaskóla á Englandi. Hún hafði ekki verið útskrifuð á sjúkrahúsinu í fyrra þegar hún var tilefnd til friðarverðlauna Nóbels í fyrra skiptið.

Stúlkan sem lifði af er fyrirmynd barna og fullorðinna um allan heim. Hún hefur þegar áorkað miklu og haft áhrif á marga og ætlar sér eflaust stóra hluti í framtíðinni. 

Malala Yousafzai, stúlkan sem lifði af, er fyrirmynd drengja og …
Malala Yousafzai, stúlkan sem lifði af, er fyrirmynd drengja og stúlkna um allan heim. AFP
Höfuðkúpa Malölu skaddaðist mikið við árásina.
Höfuðkúpa Malölu skaddaðist mikið við árásina. AFP
Malala leggur ríka áherslu á að stúlkur hafi aðgang að …
Malala leggur ríka áherslu á að stúlkur hafi aðgang að menntun, líkt og drengir. AFP
Malala hefur meðal annars ávarpað allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna.
Malala hefur meðal annars ávarpað allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert