Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu, hefur ekki sést opinberlega í yfir 38 daga. Þetta hefur vakið ýmsar vangaveltur sérfræðinga um pólitískan stöðugleika í landinu sem hefur lengi verið sveipað dulúð.
Leiðtoginn, sem er 32 ára gamall, sást síðast opinberlega fyrir rúmum mánuði, eða 3. september sl. Þá sótti hann tónleika með eiginkonu sinni, Ri Sol-Ju. Síðan þá hefur hann látið sig vanta á tvo stóra viðburði í Norður-Kóreu, annars vegar stofnunardag norðurkóresku þjóðarinnar og hins vegar hátíðarhöld í tilefni 69 ára afmælis Verkamannaflokksins í Pyonjang, höfuðborg landsins.
Margir velta fyrir sér hvar Kim sé niðurkominn og hvort hann sé alvarlega veikur, en aðrir telja að ástæða þess að hann hafi ekki komið opinberlega fram sé pólitískur óstöðugleiki í landinu. Í norðurkóreskum fjölmiðlum hefur verið talað um að persónuleg „óþægindi“ sem Kim gangi í gegnum séu ástæða þessa.
The Telegraph greindi nýlega frá því að Kim væri orðinn svo feitur að hann hefði brákað ökkla og þurft að gangast undir aðgerð. Í fréttinni kom fram að hann væri orðinn 125 kíló, en hann hefur bætt verulega á sig síðan faðir hans féll frá árið 2011.
Í frétt The Telegraph segir að þyngdaraukninguna megi rekja til mikillar áfengisneyslu og svissneskra osta sem eru í miklu uppáhaldi hjá honum. Þá reykir Kim einnig mikið.
Kenningin um brákuðu ökklana er aðeins ein af mörgum en hann er einnig sagður vera með sykursýki og þvagsýrugigt.
Sérfræðingar hafa meðal annars sagt að leiðtoginn vilji halda sig fjarri almenningi þegar hann er veikur en hann vilji ekki láta sjást að hann sé veikburða, það sé ekki gott fyrir leiðtoga Norður-Kóreu.
Önnur kenning er að Kim hafi orðið fyrir pólitísku valdaráni og sé nú haldið í stofufangelsi af pólitískum og hernaðarlegum andstæðingum sínum. Þetta hafi þeir gert í kjölfar þess að Kim lét drepa pólitíska andstæðinga sína, þar á meðal frænda sinn, Jang Song-taek, í desember. Þá hafi honum ekki tekist að halda varanlegri efnahagslegri hagsæld í landinu.