Hvar er Kim Jong-un?

Kim Jong-un
Kim Jong-un AFP

Kim Jong-un, ein­ræðis­herra Norður-Kór­eu, hefur ekki sést opinberlega í yfir 38 daga. Þetta hefur vakið ýmsar vangaveltur sérfræðinga um pólitískan stöðugleika í landinu sem hefur lengi verið sveipað dulúð. 

Leiðtoginn, sem er 32 ára gamall, sást síðast opinberlega fyrir rúmum mánuði, eða 3. september sl. Þá sótti hann tón­leika með eig­in­konu sinni, Ri Sol-Ju. Síðan þá hefur hann látið sig vanta á tvo stóra viðburði í Norður-Kóreu, annars vegar stofnunardag norðurkóresku þjóðarinnar og hins vegar hátíðarhöld í til­efni 69 ára af­mæl­is Verka­manna­flokks­ins í Pyonj­ang, höfuðborg lands­ins.

Marg­ir velta fyr­ir sér hvar Kim sé niður­kom­inn og hvort hann sé al­var­lega veik­ur, en aðrir telja að ástæða þess að hann hafi ekki komið opinberlega fram sé pólitískur óstöðugleiki í landinu. Í norðurkóreskum fjölmiðlum hefur verið talað um að persónuleg „óþægindi“ sem Kim gangi í gegnum séu ástæða þessa.

Veikur eða í stofufangelsi?

The Tel­egraph greindi ný­lega frá því að Kim væri orðinn svo feit­ur að hann hefði brákað ökkla og þurft að gang­ast und­ir aðgerð. Í frétt­inni kom fram að hann væri orðinn 125 kíló, en hann hef­ur bætt veru­lega á sig síðan faðir hans féll frá árið 2011.

Í frétt The Tel­egraph seg­ir að þyngd­ar­aukn­ing­una megi rekja til mik­ill­ar áfeng­isneyslu og sviss­neskra osta sem eru í miklu upp­á­haldi hjá hon­um. Þá reyk­ir Kim einnig mikið.

Kenn­ing­in um brákuðu ökkl­ana er aðeins ein af mörg­um en hann er einnig sagður vera með syk­ur­sýki og þvag­sýrugigt.

Sér­fræðing­ar hafa meðal ann­ars sagt að leiðtog­inn vilji halda sig fjarri al­menn­ingi þegar hann er veik­ur en hann vilji ekki láta sjást að hann sé veik­b­urða, það sé ekki gott fyr­ir leiðtoga Norður-Kór­eu.

Önnur kenning er að Kim hafi orðið fyrir pólitísku valdaráni og sé nú haldið í stofufangelsi af pólitískum og hernaðarlegum andstæðingum sínum. Þetta hafi þeir gert í kjölfar þess að Kim lét drepa pólitíska andstæðinga sína, þar á meðal frænda sinn, Jang Song-taek, í desember. Þá hafi honum ekki tekist að halda varanlegri efnahagslegri hagsæld í landinu. 

Frétt breska ríkisútvarpsins um málið

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert