Íbúar heyra öskur fórnarlambanna

Nafnlaus kross við fjöldagröf í kirkjugarðinum í Iguala. Fjölskyldur fórnarlamba …
Nafnlaus kross við fjöldagröf í kirkjugarðinum í Iguala. Fjölskyldur fórnarlamba eru hættar að reyna að greina líkin. Þau eru of illa farin. AFP

Mexíkóski bærinn Iguala er nú ekki aðeins þekktur fyrir fallega náttúru heldur fyrir fjöldagrafir, glæpagengi og hræðilegt ofbeldi. Á árinu hafa fjölmörg fórnarlömb glæpagengisins Unidos verið grafin í hæðum í kringum bæinn og vakið óhug íbúa. 

Líkamsleifar að minnsta kosti 80 manns hafa fundist á árinu og nú eru yfirvöld að rannsaka hvort að fjöldagrafir sem fundust við hæðina Las Parotas á dögunum séu grafir 43 kennaranema sem hurfu fyrir rúmum tveimur vikum síðan. 

Svæðinu stjórnað af glæpagengjum og ofbeldi

Fyrr í mánuðinum fundust 28 illa brennd lík ofan í fimm gröfum nálægt Las Parotas. Við eina hæðina rétt hjá fundust síðan fjórar ómerktar grafir í síðustu viku. Þar fundust líkamsleifar fjölmargra fórnarlamba og talið er að þau séu kennaranemar sem myrtir voru í lok september. Þetta er þó ekki fyrsti hópurinn sem grafinn er í hæðum Iguala heldur hefur þetta verið stundað í mörg ár.

„Flestir vissu að fjöldagrafir væru á svæðinu. Ég veit ekki af hverju yfirvöld eru fyrst núna að gera eitthvað í málinu,“ segir Jorge Popoca, talsmaður búðareiganda í Iguala. 

Iguala er í um 200 kílómetra fjarlægð frá Mexíkóborg og þar búa um 140 þúsund manns. Bærinn er í héraðinu Guerrero sem er eitt af fátækustu svæðum Mexíkó og er því stjórnað af glæpagengjum og ofbeldi. 

Lögreglan ásökuð um að vinna með genginu

Er yfirvöld grafa upp líkamsleifarnar koma leyndarmál Iguala í ljós en lögreglan á svæðinu hefur verið ásökuð um að vinna með genginu sem stjórnar bænum. 

„Við höfum séð tengsl á milli gengisins og embættismanna á svæðinu,“ sagði ríkissaksóknari Mexíkó, Jesus Murillo Karam í síðustu viku. 

Málið hefur vakið upp mikla reiði og í gær kveiktu nemendur í ríkisbyggingu í höfuðborg Guerrero, Chilpancingo og kröfðust þess að ríkisstjórinn Angel Aguirre myndi segja af sér. Saksóknarar hafa nú handtekið 26 lögreglumenn sem taldir eru tengjast gengjum.

Lögreglumennirnir eru ákærðir fyrir að skjóta á rútu af námsmönnum 26. september. Fjórir meðlimir Unidos voru einnig handteknir sama kvöld. Þetta kvöld létu sex manns lífið en 43 einstaklingar eru horfnir. Tveir hópar leigumorðingja hafa játað að hafa myrt 17 af 43 kenn­ara­nem­um og stendur nú rannsókn yfir.

Heyra öskur fórnarlambanna

Íbúar hverfisins sem er næst fjöldagröfunum hafa í mörg ár ekki þorað út fyrir hússins dyr á kvöldin. Er það því þau vita til þess að glæpamenn bæjarins fari með fórnarlömb sín upp í hæðirnar í myrkrinu. 

Einn íbúi, Beto Garcia, sagði að hann heyrði stundum „hryllileg öskur manna“ frá hæðunum. 

„Einu sinni gat ég auðveldlega heyrt í einu fórnarlambi. Það hljómaði eins og þeir væru að skera hann upp með sveðju. Ég heyrði líka í tveimur öðrum hlæja.“

Fólkið í hverfinu segir jafnframt að meðlimir Unidos eigi sér felustaði í hellum uppi í fjöllunum. Í bænum neyði þeir kaupmenn til þess að borga þeim ákveðinn „skatt“.

„Þeir rukka hvern kaupmann á markaðinum 1000 pesóa (8.855 íslenskar krónur) á viku. Ef þeir borga ekki er þeim rænt,“ sagði hin tvítuga Rosa Caballero í samtali við AFP. 

Líkhúsin að fyllast

Samkvæmt upplýsingum frá yfirvöldum hagnast gengið helst af sölu kannabis og heróíns til Bandaríkjanna.

Í febrúar fundust lík 21 fórnarlambs norðan við Iguala og 31 fórnarlambs við útjaðra bæjarins. Einnig fundust 27 lík í apríl og maí.

Líkhús bæjarins er nú yfirfullt af líkum sem verið er að greina. Sum þeirra hafa legið í frysti í þrjá mánuði. Mörg líkana sem eru ekki greind enda í fjöldagröf í kirkjugarði bæjarins. Þau eru sjaldan rannsökuð frekar.

Áður fyrr reyndu fjölskyldur fórnarlambanna að finna líkamsleifar ástvina sinna en hafa nú gefist upp að sögn starfsmanns kirkjugarðsins, Carlos Ulises Cambron. „Fjölskyldurnar eru hættar að koma því morðin eru of ógeðsleg. Þau eru hætt að geta þekkt ættingja sína.“

„Játa að hafa myrt 17 nem­end­ur“

Lögreglumenn standa nálægt fjöldagröfum sem fundust í Iguala á föstudaginn …
Lögreglumenn standa nálægt fjöldagröfum sem fundust í Iguala á föstudaginn í síðustu viku. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert