Lík Arnis Zalkalns, sem er helst grunaður um að hafa myrt bresku stúlkuna Alice Gross, var svo illa farið að það varð að bera kennsl á líkið á grundvelli tannlæknaskýrslna. Þetta kemur fram í frétt Telegraph.
Lettinn Arnis Zalkalns fannst látinn í skóglendi í almenningsgarði í vesturhluta Lundúna nýverið en hann hafði hengt sig. Líkið fannst í innan við 1,5 km fjarlægð frá þeim stað þar sem lík Gross fannst nokkrum dögum áður í ánni Brent.
Dánardómstjórinn segir að lík Zalkalns hafi verið það illa farið að ljóst sé að hann hafi verið látinn í töluverðan tíma. Líkið fannst hinn 4. október, mánuði eftir að síðast sást til hans. Zalkalns sat í fangelsi í Lettlandi í sjö ár fyrir morðið á eiginkonu sinni. Hann flutti til Bretlands fyrir nokkrum árum og var í sambúð. Að sögn dánardómstjórans bendir ekkert til þess að hann hafi verið myrtur.
Síðast sást til Alice Gross, fjórtán ára, á lífi hinn 28. ágúst. Þá sást hún á myndskeiði í öryggismyndavél á gangi meðfram Grand Union-skipaskurðinum í Hanwell. Lík hennar fannst í Brent-ánni rúmum mánuði síðar, vafið í plast. Hafði því verið komið þannig fyrir að erfitt var að finna það.
Á myndskeiðinu úr öryggismyndavélunum sést Zalkalns hjóla sömu leið og Alice Gross einungis nokkrum mínútum á eftir henni. Hann hvarf af heimili sínu hinn 3. september. Enn hefur ekki tekist að fá niðurstöðu í hver dánarorsök Alice Gross var annað en að hún hafi verið myrt.