Sjúkrahús helvítis

Þessi unga stúlka er talin vera með ebólu. Hér er …
Þessi unga stúlka er talin vera með ebólu. Hér er hún í eingangrun við sjúkrahús í Síerra Leóne. AFP

Sjúklingar á sjúkrahúsi í Makeni í Síerra Leóne, eru einangraðir með því að setja þá inn í herbergi og skella í lás. Þar engjast þeir um, jafnvel á gólfinu, baðaðir í þvagi og öðrum líkamsvessum. Sumir þeirra eru með ebólu. Aðrir eru hugsanlega með hana.

Hjúkrunarfólkið er illa búið. Sumt er ekki einu sinni með hanska. Sjúklingarnir liggja innan um lík. Lýsing blaðamanns New York Times, Adam Nossiter, er hryllingur. Því ástandið er hryllilegt. Makeni er ein stærsta borg Síerra Leóne. Þar, eins og víða annars staðar, voru sjúkrahúsin alls ekki í stakk búin til að takast á við ebólufaraldurinn. Bretar hafa lofað að byggja einangrunardeildir á nokkrum stöðum í landinu og einnig í Líberíu. Enn eru þær ekki komnar upp.

Fjögurra ára stúlka liggur á gólfinu í hlandpolli. Blóð rennur úr munni hennar. Augun eru opin. Í horni sjúkradeildarinnar er lík ungrar konu. Hún hafði dáið um nóttina. Lítill drengur liggur við fötur fullar af ælu. Þegar komið er að sækja lík konunnar er úðað með klór. Sömuleiðis er litla stúlkan með blóðið í munninum úðuð með klór.

Viðbrögðin við ebólufaraldrinum í Vestur-Afríku hafa aldrei verið í takt við útbreiðslu sjúkdómsins á svæðinu. Sífellt fleiri sýkjast, sífellt fleiri deyja. Talið er að um 70% af þeim sem sýkjast muni láta lífið. 

Svæði umhverfis borgina Makeni var sett í sóttkví er smitsjúkdómurinn fór úr böndunum í september. Fólk sýkt af ebólu deyr á götum úti eða á illa útbúnum sjúkrahúsum þar sem nær enga hjálp er að fá. Sýkingarhættan er líka mikil á sjúkrahúsunum sjálfum. 

Það eru alltof fáir að hjúkra. Og þeir fáu sem það gera hafa ekki fengið þjálfun.

Því er sjúklingum með einkenni ebólu blandað saman við aðra sjúklinga á spítalanum.

400 heilbrigðisstarfsmenn veikst

Um 400 heilbrigðisstarfsmenn hafa sýkst af ebólu í þeim faraldri sem nú geisar. Um 230 hafa látist. Sextán læknar frá samtökunum Læknar án landamæra, hafa smitast af ebólu og níu þeirra hafa dáið. Langflestir hafa smitast og látist í Líberíu, Gíneu og Síerra Leóne. 

Yfir 4.500 manns hafa látist úr ebólu í faraldrinum nú. 

UNICEF eru ein þeirra samtaka sem berjast fyrir bættri heilsugæslu barna í löndum Vestur-Afríku. UNICEF á Íslandi hefur hrint af stað átaki til aðstoðar börnum.

Hér getur þú styrkt söfnunina.

Unnið að því að fjarlægja lík ebólusjúklinga af götum borga …
Unnið að því að fjarlægja lík ebólusjúklinga af götum borga í Síerra Leóne. AFP
Í þessu húsi kom upp ebólusmit og á sjá má …
Í þessu húsi kom upp ebólusmit og á sjá má starfsmenn hins opinbera hreinsa það. AFP
Frá sjúkrahúsi í borginni Foredugu í Síerra Leóne. Ebólusmituð kona …
Frá sjúkrahúsi í borginni Foredugu í Síerra Leóne. Ebólusmituð kona sefur undir berum himni. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert