Jan Mörtberg, sérfræðingur við Försvarshögskolan í Svíþjóð, telur meint erlend neðansjávarstarfsemi í sænska skerjagarðinum sé ekki merki um yfirvofandi árás á Svíþjóð.
Hann svaraði spurningum lesenda á opinni línu á vefsíðu Sænska ríkissjónvarpsins í kvöld.
Mörtbert sagði að þó væri merki um að öryggi landsins væri ekki alveg eins og ætlast er til og því stæði aðgerðin yfir í skerjagarðinum.
Mörtbert var einnig spurður að því hvort líkur væru á því að um væri að ræða kafbát í eigu almenns borgara og vísaði hann í blaðamannafund sænska hersins fyrr í dag þar sem fram kom að um erlenda neðansjávarstarfsemi væri að ræða.
Þá vildi lesandi einnig vita hversu mikið af upplýsingum almennir borgarar fengju, hvort einhverju væri haldið eftir. Mörtbert sagði að blaðamannafundurinn í dag hefði snúist um að veita upplýsingar um aðgerðina eins og kostur er á.
Einn lesandinn vildi vita af hverju væri svo erfitt að staðsetja sjófar ef „vitað“ væri að það væri á ákveðnum stað.
Mörtberg sagði að að sögn sérfræðinga væri sérstaklega erfitt að finna sjófar á þessum slóðum á vorin og á haustin vegna hitastigs vatnsins. Þar að auki væri sjávarbotninn í firðinum ekki úr sandi og þá væru margir staðir þar sem hægt væri að fela sjófar, vildi maður það.