Rússneskt skip á leið til Svíþjóðar

Sænski herinn er með umfangsmikla leit fyrir utan sænska skerjagarðinn, …
Sænski herinn er með umfangsmikla leit fyrir utan sænska skerjagarðinn, skammt frá Stokkhólmi. AFP

Rússneskt skip, sem sagt er vera sérstaklega útbúið til leitar á hafsbotni, stefnir nú yfir Eystrasalt. Sænski herinn hefur leitað við sænska skerjagarðinn frá því á föstudag. Heimildir fjölmiðla herma að leitað sé að rússneskum kafbát sem sé í vanda.

Í frétt Sænska ríkissjónvarpsins segir að rússneska skipið, sem stefnir nú í átt til Svíþjóðar, hafi lagt frá bryggju í St. Pétursborg. Þetta er haft eftir frétt norsks dagblaðs, Dagbladet. 

Skipið lagði úr höfn í St. Pétursborg í nótt.

Sænsk yfirvöld hafa enn ekki staðfest að leitað sé að kafbáti á svæðinu en herskip, herþyrlur og hraðbátar hersins eru við leit utan við sænska skerjagarðinn.

Upphaf málsins má rekja til ábendingar sem barst sænskum varnarmálayfirvöldum á föstudag um „ókunnan hlut“ í sjónum. Leit hefur staðið yfir síðan þá.

Rússneskt olíuflutningaskip hefur hringsólað á svæðinu frá því á miðvikudag. Er Sænska dagblaðið hóf að flytja fréttir af því tók það beina stefnu út af svæðinu.

Rússnesk stjórnvöld hafa neitað því að rússneskur kafbátur sé í neyð á svæðinu. 

Rússneska skipið, sem nú er komið í Eystrasalt og stefnir í átt að Svíþjóð, heitir Prófessor Logatjev. Í frétt sænska sjónvarpsins kemur einnig fram að þrjú hollensk skip, sem nýverið tóku þátt í heræfingu NATO í Eystrasalti, séu í nágrenni þess rússneska.

Fréttir mbl.is:

„Enginn kafbátur í neyð“

Skip „sikksakkar“ í skerjagarðinum

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert