Skip „sikksakkar“ í skerjagarðinum

Sænski herinn er við leit í sænska Skerjagarðinum fyrir utan …
Sænski herinn er við leit í sænska Skerjagarðinum fyrir utan Stokkhólm. AFP

Rússneskt olíuflutningaskip hefur „sikksakkað“ fyrir utan sænska skerjagarðinn síðustu daga en skipið var á leið til danskrar hafnar. Sænskir fjölmiðlar velta því nú fyrir sér hvort skipið sé að aðstoða bilaðan rússneskan kafbát sem talið er að sé á svæðinu.

Olíuflutningaskipið var á leið til Danmerkur er það fór úr heimahöfn fyrir mörgum dögum, segir í frétt danska ríkisútvarpsins um málið. En frá því 15. október hefur skipið verið fyrir utan sænska skerjagarðinn við Stokkhólm. Samkvæmt upplýsingum danska ríkisútvarpsins er um að ræða skipið NS Concord. Það er rússneskt en siglir undir líberískum fána.

Sænska dagblaðið greindi frá óvenjulegri siglingu olíuskipsins í frétt á vef sínum í gærkvöldi. Í kjölfar fréttarinnar breytti skipið stefnu sinni og sigldi í átt frá Danmörku, sem var upphaflega sá staður sem skipið ætlaði til.

Sænski herinn gerir nú ítarlega leit í sænska skerjagarðinum að hinum meinta kafbát. Ef rétt reynist að þar sé að finna rússneskan kafbát í vanda þarf hann að hafa skip í nágrenninu til aðstoðar. Það myndi skýra veru rússneska olíuflutningaskipsins á svæðinu og af hverju það hefur verið á alþjóðlegu hafsvæði utan við sænska skerjagarðinn frá því á miðvikudag, segir í frétt danska ríkisútvarpsins.

Sænska dagblaðið segist hafa heimildir fyrir því að búið sé að útiloka að um dýr eða náttúrufyrirbrigði í sjónum sé að ræða. Þá segir blaðið að einhverjir segist hafa greint manngerðan hlut í sjónum. Einnig segist dagblaðið hafa upplýsingar um neyðarsamtal milli Rússlands og Kanholmsfjarðar, þar sem talið er að hinn meinti kafbátur sé.

Yfirvöld í Svíþjóð hafa enn ekki staðfest þann grun að leitað sé að meintum kafbáti við skerjagarðinn, sem samanstendur af þúsundum eyja, rifja og kletta.

Forsíðufrétt Sænska dagblaðsins: Leitað að biluðum kafbáti í Skerjagarðinum.
Forsíðufrétt Sænska dagblaðsins: Leitað að biluðum kafbáti í Skerjagarðinum. Skjáskot Sænska dagblaðið
Sænski herinn við leit í sænska Skerjagarðinum fyrir utan Stokkhólm.
Sænski herinn við leit í sænska Skerjagarðinum fyrir utan Stokkhólm. PONTUS LUNDAHL
Leitað er í sænska Skerjagarðinum að óþekktum hlut, að sögn …
Leitað er í sænska Skerjagarðinum að óþekktum hlut, að sögn sænska hersins. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert