Beita valdi ef nauðsyn krefur

Sverker Goeranson talar við fjölmiðla í dag.
Sverker Goeranson talar við fjölmiðla í dag. AFP

Sænski herinn varaði við því í dag að mögulega yrði notað vald til þess að finna meintan rússneskan kafbát sem leitað hefur verið í Eystrasaltinu síðan á föstudaginn. 

Herskip, tundurduflaslæðarar, þyrlur og rúmlega 200 hermenn hafa leitað kafbátarins síðustu daga á stóru svæði í 30 til 60 kílómetra fjarlægð frá Stokkhólmi.

Hershöfðinginn Sverker Göransson sagði í dag að mögulega þyrfti að beita valdi til þess að finna kafbátinn. 

„Mikilvægast í þessu, hvort sem við finnum eitthvað eða ekki, er að senda skýr skilaboð um að Svíþjóð og hersveitir okkar eru starfandi og tilbúin til þess að gera eitthvað þegar við höldum að verið sé að traðka á landamærum okkar,“ sagði hershöfðinginn.

„Markmið okkar er að fá það sem við leitum að upp á yfirborðið, með valdi ef nauðsyn krefur.“

Þrátt fyrir ýmsar kenningar um að Rússar bæru ábyrgð á hlutnum þvertóku Rússar fyrir það og bentu á Hollendinga sem hlógu að ásökununum. Bentu þeir á að þeirra kafbátur væri nú við höfn í Tallinn í Eistlandi. 

„Við höfum ekki fundið neitt ennþá. Við teljum samt að eitthvað sé í gangi. Það er líkleg virkni neðansjávar,“ sagði Göransson sem bætti við að gífurlega erfitt væri að staðsetja kafbáta.

Hann sagði þó að aðgerðir hersins, sem eru nú í aðallega í kringum eyjuna Ingaroe, myndu halda áfram eins lengi og nauðsyn krefði. 

Spenna hefur myndast í kringum Eystrasaltið síðan leitin hófst í síðustu viku. Utanríkisráðherra Lettlands, Edgars Rinkevics, sagði að leitin myndi mögulega breyta öllu í öryggismálum á svæðinu.

Forsætisráðherra Litháens, Algirdas Butkevicius, sagði í samtali við sænska dagblaðið Expressen að hann teldi meinta starfsemi Rússa í Eystrasalti viðvörun til Eystrasaltslandanna og Norðurlandanna.  

„Það sem hófst í Úkraínu sést nú í öðrum löndum. Lönd Evrópusambandsins þurfa nú að standa saman. Aðeins þannig getum við mætt þessum áskorunum og hættum,“ bætti hann við.

Frá leitinni í dag.
Frá leitinni í dag. AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert