Sænski herinn leitar enn að óþekkta kafbátnum í skerjagarðinum fyrir utan Stokkhólm, samkvæmt fréttum sænskra fjölmiðla í dag.
Samkvæmt frétt Dagens Næringsliv er flugbann undir 1.300 metrum enn í gildi og umferð báta takmörkuð. Yfirmaður hersins mun tjá sig um leitina í hádeginu í dag.
Líkt og fram hefur komið er helst talið að leitin beinist að rússneskum kafbáti en rússnesk yfirvöld segja að það sé ekki rétt þar sem enginn rússneskur kafbátur sé á þessum slóðum. Þetta er fimmti dagurinn í röð sem þessa dularfulla sjófars er leitað.
Um er að ræða viðamestu aðgerð sænska hersins á þessum slóðum í langan tíma en sovéskur kafbátur, búinn kjarnorkuvopnum, strandaði árið 1981 skammt frá Gautaborg.