„Ég var fullur undrunar frekar en hræðslu. Það var enginn tími til að vera hræddur,“ sagði Alain Merizier, þjónn í þinghúsinu í Ottawa í Kanada, í samtali við breska ríkisútvarpið, en hann varð vitni af því þegar skotum var hleypt af við þinghúsið í dag.
Skotum var einnig hleypt af við stríðsminnisvarða í borginni og í Rideau verslunarmiðstöðinni í dag. Einn byssumaður hefur verið skotinn til bana, en talið er að annar byssumaður gangi enn laus.
„Ég var á leið til vinnu í þinghúsinu um klukkan 10 í morgun þegar ég heyrði sírenur og sá svartan bíl, en vissi ekki hvað hafði gerst,“ segir Merizier. „Ég sá að bílstjórinn stöðvaði bílinn og tók út byssu og hljóp svo að þinghúsinu. Ég heyrði í einu skoti og svo sá ég að lögregluþjónn hljóp á eftir honum.“
Merizier segir manninn hafa litið út fyrir að vera arabískan. „Ég sá bara einn mann. Hann var með svart sítt hár og skegg og var á svörtum bíl.“
Hermaður sem byssumaður skaut við stríðsminnisvarðann í Ottawa í dag hefur látist af sárum sínum. Eftir að byssumaðurinn hafði skotið vörðinn fór hann inn í þinghúsið þar sem hann skiptist á skotum við lögreglumenn. Einnig var skotum hleypt af í verslunarmiðstöð í dag og enn er miðborginni lokað á meðan aðgerðir lögreglu standa yfir.
Atvikið átti sér stað nokkrum klukkustundum hækkaði viðbúnaðarstig landsins vegna hryðjuverkaógnar í kjölfar árásar sem átti sér stað á mánudag, en þá var ekið á tvo hermenn sem létust.
Jason Kenney, atvinnumálaráðherra Kanada, hefur tjáð sig um málið á Twitter-síðu sinni.
Condolences to family of the soldier killed, & prayers for the Parliamentary guard wounded. Canada will not be terrorized or intimidated.
— Jason Kenney ن (@kenneyjason) October 22, 2014