Svíar gætu beitt valdi í leit sinni að meintum kafbáti í sænska skerjagarðinum. Þetta segir flotaforingi sænska hersins í samtali við BBC.
Anders Grenstad flotaforingi segir að ef kafbátur finnst á svæðinu er hugsanlegt að vopnum verði beitt til að þvinga hann upp á yfirborðið.
Í tæpa viku hefur sænski herinn leitað að ókunnum hlut, sem til sást í sjónum fyrir utan Stokkhólm. Fjölmiðlar hafa haldið því fram að um rússneskan kafbát sé að ræða en því hafa rússnesk yfirvöld staðfastlega neitað. Fregnir hafa hermt að hinn meinti kafbátur sé hugsanlega í vanda. Rússneskt olíuflutningaskip, sem breytti stefnu sinni um helgina og hringsólaði í sænska skerjagarðinum, styður m.a. þá tilgátu.
Flotaforinginn segir við BBC að nú sé aðeins unnið að því að leita og afla upplýsinga.
Sænsk yfirvöld hafa fengið nokkrar ábendingar um dularfullt skip skammt undan ströndinni.
Grenstad, sem er aðstoðarleitarstjóri í leitinni að kafbátnum, segist ekki „hafa hugmynd“ um frá hvaða landi hið dularfulla sjófar er.
„Allir eru að giska á eitthvað, þannig er það þegar þú leitar að kafbáti,“ segir flotaforinginn.
Sænskir fjölmiðlar hafa einnig greint frá því að neyðarkall á rússnesku hafi heyrst af svæðinu.
Flotaforinginn segir að enn eigi eftir að fá staðfest að um kafbát sé að ræða. „Okkur er illa við þá staðreynd að eitthvað er í sjónum hjá okkur - eða að við teljum að eitthvað sé í sjónum hjá okkur.“
Grenstad segir að ef sænski herinn finni kafbátinn með leitartækjum sínum hafi skipstjóri þess herskips möguleika á að nota vopn til að fá kafbátinn „til að hætta hverju því sem hann er að gera.“
Flotaforinginn hvetur Svía til að fylgjast vel með í skerjagarðinum og taka myndir af öllu óvenjulegu sem það sjái í sjónum. Sérstaklega þeir sem eru á eyjunum í skerjafirðinum.