Leitin að hinum meinta rússneska kafbáti við strendur Svíþjóðar er nú komin á nýtt stig samkvæmt Svenska Dagbladet.
Á blaðamannafundi í dag neitaði upplýsingafulltrúi sænska hersins, Erik Lagersten, að segja í hverju þetta nýja stig fælist en sagði að aðgerðir hersins væru eftir áætlun.
Nokkuð af þeim skipum sem tekið hafa þátt í leitinni verða við höfn í dag og sama gildir um nokkrar flugvélar hersins. Yfirvöld hafa þó neitað að verið sé að draga úr rannsókninni og segja hana alveg jafn metnaðarfulla og áður.