Skotárás í Kanada

Lögregla og sjúkraliðar flytja særðan hermann af vettvangi árásarinnar.
Lögregla og sjúkraliðar flytja særðan hermann af vettvangi árásarinnar. AFP

Skotum var í dag hleypt af við stríðsminnismerki í Ottawa í Kanada, skammt frá þinghúsinu. Vitni segja að sést hafi til manns hlaupa í átt að opinberum byggingum á svæðinu þar sem fleiri skotum var skotið. CNN segir að skothríð hafi heyrst innan úr þinghúsinu sjálfu. Þingmaður, sem staddur er í þinghúsinu, segir að skotum hafi verið hleypt af inni í byggingunni. Óstaðfestar fréttir herma að skotárásarmaðurinn hafi verið skotinn til bana. Lögreglan grunar að fleiri hafi komið að skotárásinni.

Hermaður særðist í árásinni, að því er fram kemur í fréttum kanadískra miðla. Maðurinn stóð vörð við minnismerkið er árásarmaðurinn kom þar að og hóf að skjóta með riffli.

Í frétt BBC segir að fyrir nokkrum klukkustundum hafi stjórnvöld í Kanada aukið viðbúnað sinn vegna hryðjuverkaógnar en hermaður var skotinn til bana fyrr í vikunni. Fram kemur í frétt BBC að viðbúnaðarstigið hafi verið hækkað vegna ummæla frá meðlimum öfgasamtaka á borð við Ríki íslams, á netinu.

Lögreglan er nú að leita að árásarmanninum í þinghúsinu og nálægum byggingum. Svæðið hefur verið girt af.

Í frétt Sky-fréttastofunnar er haft eftir sjónarvotti að árásarmaðurinn hafi komið hlaupandi inn á fund stjórnmálaflokks í þinghúsinu. Lögreglan hafi fylgt á eftir og hrópað: „Leitið skjóls.“

Þingmaður, sem var inni í þinghúsinu er árásin átti sér stað segir að hann hafi heyrt 30 skotum hleypt af. Hann segir að forsætisráðherrann hafi verið í þingsalnum en sé nú kominn í öruggt skjól.

Öryggisgæsla við heimili forsætisráðherrans hefur verið hert.

Á þriðjudag skaut lögreglan í Quebec mann, sem snúist hafði til íslams, til bana. Maðurinn hafði ekið á tvo hermenn á bíl sínum. Annar þeirra lést og hinn slasaðist.

 Frétt BBC um skotárásina.

Lögregla og sjúkraliðar flytja særðan hermann af vettvangi árásarinnar.
Lögregla og sjúkraliðar flytja særðan hermann af vettvangi árásarinnar. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert