Lögreglan í Kanada hefur birt opinberlega upptöku úr eftirlitsmyndavélum sem sýnir þegar vopnaður maður fór inn í kanadíska þinghúsið í Ottawa í gær. Nokkrum mínútum áður hafði byssumaðurinn skotið hermann til bana við stríðsminnisvarðann, sem er skammt frá þinghúsinu.
Lögreglan segir að byssumaðurinn hafi verið einn að verki.
Lögreglumaðurinn Kevin Vickers felldi byssumanninn í þinghúsinu, en hann hét Michael Zehaf-Bibeau og var 32 ára gamall.
Fram kemur á vef breska ríkisútvarpsins, að Zehaf-Bibeau hafi ekki verið á lista yfir þekkta hættulega ferðamenn. Hann hafði aftur á móti tengsl við öfgahópa að sögn lögreglu. Hann hafði t.d. nýverið sótt um vegabréf og hugðist hann ferðast til Sýrlands.
Lögreglustjórinn Bob Paulson sagði á blaðamannafundi í dag að Zehaf-Bibeau hefði fæðst í Kanada. Hann hefði verið smáglæpamaður og mögulega með tvöfalt ríkisfang, kanadískt og líbýskt.
Paulson sagði að Zehaf-Bibeau hefði ekki verið að á meðal 90 einstaklinga sem kandadíska öryggislögreglan telji vera hættulega ferðamenn. Það er þvert á fyrri yfirlýsingar.
Lögreglan segir ennfremur, að hann tengist ekki manni sem ók niður kanadískan hermann í Quebec á mánudag, en hermaðurinn lést. Árásarmaðurinn hafði nýverið snúist til íslamstrúar.
Paulson sagði ekki útilokað að Zehaf-Bibeau hefði verið með öfgafullar skoðanir.