Forsætisráðherra Kanada, Stephen Harper, segir að Kanadamenn muni aldrei láta kúga sig og baráttan gegn hryðjuverkasamtökum verði hert. Þetta kom fram í máli Harpers eftir að vopnaður maður skaut á hermann við stríðsminnisvarða í Ottawa í gær og réðst síðan inn í kanadíska þinghúsið í borginni. Hermaðurinn lést skömmu síðar af sárum sínum. Til skotbardaga kom í þinghúsinu og var árásarmaðurinn skotinn til bana. Einnig var hleypt af byssum í nálægri verslunarmiðstöð og nokkrum byggingum á svæðinu var lokað.
Árásin var gerð nokkrum klukkustundum eftir að yfirvöld í Kanada vöruðu við hættu á hryðjuverkum í landinu eftir að maður, sem hafði snúist til íslamskrar trúar, ók af ásettu ráði á bíl tveggja hermanna og varð öðrum þeirra að bana.
Yfirvöld í Kanada hafa nafngreint árásarmanninn í gærkvöldi, Michael Zehaf-Bibeau, en hann snerist nýverið til íslam. Hann var rúmlega þrítugur að aldri. Ekki er langt síðan vegabréfið var tekið af honum og hann skráður sem hættulegur vegna öfgaskoðana og geðrænna kvilla, að því er fram kemur á vef BBC. Samkvæmt frétt CNN og New York Times var Zehaf-Bibeau á sakaskrá.
Zehaf-Bibeau hét áður Michael Joseph Hall og fæddist í Quebec árið 1982. Samkvæmt kanadískum fjölmiðlum hefur hann unnið sem farandverkamaður en ekki liggur nákvæmlega fyrir hvenær hann ákvað að snúa til íslam en talið að ekki sé langt síðan.
Faðir hans er kaupsýslumaður í Quebec og móðir hans vinnur hjá útlendingastofnun Kanada. Foreldrar hans skildu fyrir fimmtán árum. Fyrrverandi nágranni segir í samtali við CNN að þau hafi bæði verið góðir foreldrar og alið önn fyrir drengnum.
Samkvæmt réttarskjölum var Zehaf-Bibeau ákærður fyrir vörslu fíkniefna í Quebec árið 2004. Hann játaði sök og var dæmdur í tveggja mánaða fangelsi. Árið 2011 var hann ákærður fyrir rán og hótanir í Vancouver. Hann var hins vegar ekki fundinn sekur um fyrri ákæruliðinn og því aðeins dæmdur í eins dags fangelsi.
Zehaf-Bibeau var beðinn að hætta að mæta í bænir í moskunni sem hann stundaði þar sem hegðun hans truflaði aðra. Vinur hans sagði samkvæmt CNN að Zehaf-Bibeau teldi að djöfullinn væri á eftir sér. Vinurinn sagðist í samtali við Globe and Mail telja að hann hefði átt við geðræn vandamál að stríða.