Leitað hefur verið að ókunnu sjófari í sænska skerjagarðinum í viku. Herinn stýrir og sér um leitina sem hefur enn engan árangur borið. Leitinni verður haldið áfram að fullum krafti.
Mikael Abrahamsson, fjölmiðlafulltrúi sænska hersins, sagði í samtali við sænska ríkissjónvarpið að leitinni verði haldið áfram þar til herinn metur að hægt sé að hætta henni.
Hann vill ekki gefa nánari upplýsingar um svæðið sem leitað er á eða í hverju áframhaldandi leit felst.
Í gær fóru flestir bátarnir sem notaðir hafa verið við leitina til hafnar og var því talið að leitinni hefði verið hætt eða verulega hefði verið dregið úr henni. Mikael segir að svo sé ekki, áhafnir skipanna hafi aðeins komið að landi til að hvílast og sækja matarbirgðir.